„Ég er hér til að bjarga mannkyninu,“ segir hún í myndbandinu en í 16 mínútur ræðir hún um kristindóm, mýtur og samsæriskenningar. Í bakgrunni hljómar New Age tónlist. Amy staðhæfir í myndbandinu að hún hafi skapað jörðina og að nú ætli hún að leiða mannkynið til fimmtu víddarinnar áður en það er of seint. „Þú mátt kalla mig guð,“ segir hún.
Þann 28. apríl á þessu ári fannst uppþornað og fjólublátt lík í hjólhýsi í bænum Moffat í Colorado. Líkið var á altari og vel pakkað inn í svefnpoka sem var þakinn blikkandi jólaljósum. Það var glimmer á andlitinu en augun höfðu verið fjarlægð.
Rannsókn leiddi í ljós að þetta var Amy Carlson, 45 ára. Í hjólhýsinu voru sjö manns og brostu og hlógu. Fólkið var reiðubúið til að fylgja Amy til nýrrar víddar.
En það fór ekki svo, að minnsta kosti ekki að sinni, því fólkið var handtekið og kært fyrir vansæmandi meðferð á líki og ofbeldi gagnvart börnum. „Ég hef alrei séð hóp fólks vera svo sama um andlát manneskju“, sagði Steven Hansen lögreglumaður.
Nýlega tilkynnti HBO að heimildarmynd verði gerð um Amy og þann undarlega sértrúarsöfnuð sem hún kom á laggirnar og varð að lokum henni sjálfri að bana.
Margir hafa velt fyrir sér hvað gerðist hjá safnaðarmeðlimunum sem bjuggu í Sangre de Cristo Range fjalllendinu í Colorado.
Ættingar Amy velta því einnig fyrir sér hvað hafi gerst en þeir stóðu álengdar og fylgdust með þegar Amy sogaðist inn í banvæna hringiðu. Móðir hennar, Linda Haythorne, sagði í samtali við Denver Post að Amy hafi breyst úr venjulegri giftri þriggja barna móður, sem vann á McDonald‘s, í andlega veikan trúarleiðtoga sem kallaði sig Móður Guð.
Linda sagði að Amy hafi gengið vel í skóla í æsku, hafi verið vinsæl en strákamálin hafi alltaf vafist fyrir henni. Þegar hún varð 25 ára átti hún þrjú hjónabönd að baki og eitt barn úr hverju þeirra. Hún hafði lítinn áhuga á að vera með börnunum sínum og það kom því oft í hlut móður hennar að gæta þeirra.
Hjónaböndin voru stormasöm og Amy daðraði mikið við aðra karlmenn á netinu. Oft stakk hún af til að vera með þeim. Linda sagði að hún hafi breyst mikið eftir að hún eignaðist sitt þriðja barn. Hún hafi orðið sífellt meira upptekin af andlegum málefnum og velti mikið fyrir sér hver tilgangur lífsins væri. Hún komst að þeirri niðurstöðu að hlutverk hennar væri að breiða kærleika út um Bandaríkin.
Þegar hún borðaði með fjölskyldu sinni á Þakkargjörðarhátíðinni 2012 ásamt börnum sínum, sem voru tveggja, sjö og tólf ára, tilkynnti hún að hún væri búin að segja vinnu sinni upp og væri á förum. Hún sagðist ætla að ferðast um Bandaríkin til að „breiða út kærleika“. Eftir það heyrði fjölskyldan sáralítið frá henni.
Nokkrum mánuðum síðar byrjaði hún að birta myndbönd á YouTube og fjölskylda hennar horfði í forundran á hvernig hún varð leiðtogi sértrúarsöfnuðar.
Í myndböndunum kom fram að hún hafði safnað að sér áhangendum víða um landið og í beinum útsendingum ræddu þeir um allt frá kynlífi til fíkniefna.
Sex árum eftir að Amy yfirgaf Texas byrjuðu myndböndin að vera dimm og óskiljanleg. Hún öskraði á áhangendur sína og kallaði alla sem fylgdu henni ekki að málum „hórur“ og „afturhaldsseggi“ og var með gyðinga- og hommahatur. Hún sagðist fljótlega ætla að taka 144.000 útvaldar manneskjur með sér til fimmtu víddarinnar.
Hún eignaðist unnusta sem var Jason Castillo, 44 ára, fyrrum refsifangi. Hún kallaði hann Faðir Guð. Hann hafði nýlega losnað úr fangelsi eftir að hafa afplánað dóma fyrir ýmis brot. Þar á meðal ölvunarakstur, innbrot, vanrækslu barna og ólöglegar ferðir um land annarra.
Jason var álíka upptekin af sértrúarsöfnuðinum og Amy og gáfu þau honum nafnið „Love Has Won“ (Ástin hefur sigrað). Þau tóku 20 áhangendur með sér og fluttu inn í hús í Sangre de Cristo í Colorado.
2020 var söfnuðurinn skráður opinberlega og Jason sem leiðtogi hans. Þar með var söfnuðinum tryggt skattfrelsi. Til að afla fjár rak söfnuðurinn netverslun með fatnað, farsímahulstur og tennissokka. Margir safnaðarmeðlimir höfðu yfirgefið maka sína og börn til að helga sig söfnuðinum.
Amy tók allar tekjurnar af netversluninni til sín og hún tók einnig allar opinberar bætur safnaðarmeðlimanna.
Daglega voru sendar út margra klukkutíma langar beinar útsendingar þar sem vörur voru kynntar og reynt var að afla nýrra meðlima. Í hverri útsendingu var Móðir Guð, Amy, hyllt. Hún sagði oft að hún hefði lifað 534 lífum, meðal annars sem Jesús, Kleópatra og Marilyn Monroe. „Ég man að ég hékk á krossinum sem Jesú,“ sagði hann.
Á heimasíðu safnaðarins skrifaði Amy að hún hafi skapað jörðina og að hún væri 19 milljarða ára gömul.
Allir safnaðarmeðlimir urðu að taka upp nýtt nafn og voru það Amy og Jason sem völdu nafn fyrir þá og enginn mátti sofa lengur en í fjórar klukkustundir á hverri nóttu. Allir nema Amy og Jason urðu að fara á fætur klukkan 5 til að vinna. Matur var skammtaður og safnaðarmeðlimir léttust hratt nema Amy og Jason sem máttu borða eins mikið og þau vildu og hin urðu að þjóna þeim.
Enginn utan safnaðarins vissi hvað gerðist í honum þegar slökkt var á myndavélunum. En 23. maí 2020 fengu Bandaríkjamenn smá innsýn í starfsemi safnaðarins þegar fjölskyldufaðirinn Alex Whitten fanns nakinn og ofþornaður í eyðimörk í Colorado. Þremur dögum áður hafði hann yfirgefið eiginkonu sína og þrjú börn til að flytja inn hjá Love Has Won. Hann ráfaði um eyðimörkina og var með brunasár á augunum og iljarnar voru fullar af kaktusnálum. Hann sagði að söfnuðinum fyndist að hann skorti „rétta orku“ og „væri röngu megin við fjallið“ og því hafi hann verið skilinn eftir í eyðimörkinni. Hann var fluttur á sjúkrahús en vildi ekki fá meðferð, hann vildi að söfnuðurinn myndi lækna hann.
Í Texas sat fjölskylda Amy og horfði vantrúuð á myndböndin. Börnin hennar, systur og foreldrar höfðu árum saman reynt að ná sambandi við hana en án árangurs. Í september 2020 gerði fjölskyldan lokatilraun til að ná sambandi við hana í þætti Dr. Phil í sjónvarpi. Þau grátbáðu hana um að yfirgefa söfnuðinn og koma heim en það skilaði engum árangri.
Amy vísaði því á bug að Love Has Won væri sértrúarsöfnuður og sagðist hafa neyðst til að yfirgefa börnin sína til að dreifa kærleika um Bandaríkin. Hún sagðist hafa fengið krabbamein og væri lömuð frá mitti og niður.
Hún vildi ekki fá læknisaðstoð í glímunni við krabbameinið og sagðist ekki treysta læknum sem gætu jafnvel komið í veg fyrir að hún kæmist í fimmtu víddina. Í staðinn tók hún 15 safnaðarmeðlimi með sér til Hawaii þar sem hún ætlaði að eyða síðustu dögum ævinnar áður en hún myndi „stíga upp“ í gegnum hlið til hins útópíska bæjar Lemuria.
Fólkið settist að á eyjunni Kauai en íbúar þar tóku þeim ekki vel og vildu söfnuðinn í burtu. Heimamenn kveiktu í pálmatrjám fyrir utan hús safnaðarins til að sýna fyrirlitningu sína á þeim. Söfnuðurinn reyndi að bera klæði á vopnin með því að birta enn eitt myndbandið á YouTube en það gerði hlutina bara enn verri.
Að lokum neyddist söfnuðurinn til að yfirgefa eyjuna og fara aftur til Colorado.
Þegar heim var komið versnaði heilsa Amy sífellt. Hún lá í rúminu allan sólarhringinn en hélt áfram með beinar útsendingar á YouTube. Hún sagðist hafa fengið krabbamein af því að hún hefði læknað mörg hundruð manns af krabbameini. Í flestum útsendingunum þambaði hún vodka og varð drukkin og ruglaði.
Þann 15. október 2020 birti söfnuðurinn myndband þar sem sagt er að Móðir Guð leiti ekki til læknis því „læknir skilji ekki ferlið í tengslum við uppstigninguna“. Amy var ekki með í myndbandinu.
Þann 12. apríl á þessu ári ræddi Amy við son sinn sem var í Texas. Hún var greinilega veik, húð hennar var fjólublá og hún átti erfitt með andardrátt. Fjölskyldan lét lögregluna og önnur yfirvöld vita af þessu.
Lögreglumenn, sjúkraflutningamenn, félagsmálayfirvöld og fleiri sendu fólk heim til Amy í Love Has Won húsið en öllum var sagt að hún væri ekki þar. Yfirvöldum var ekki leyft að fara inn í húsið.
Þann 14. apríl var mynd af Amy birt á einkaspjallrás Love Has Won en á henni sást Amy liggja í fangi Jason og var hún annað hvort dáin eða við það að deyja.
Þann 27. apríl kom Miguel Lamboy, sem sá um fjármál söfnuðarins, heim í hjólhýsið sitt í Casada Park í Colorado. Þar tók fjöldi annarra Love Has Won meðlima á móti honum og sögðu honum að þeir þyrftu að fá að gista hjá honum. Hann leyfði þeim það en daginn eftir kom hann aftur með tveggja ára gömlum syni sínum. Þá tók Jason á móti honum. „Komdu og sjáðu Mömmu,“ sagði hann og dró Miguel með sér inn í svefnherbergið. Miguel hafði ekki séð Amy lengi og var forvitinn um hvernig ástand hennar væri.
„Knúsaðu hana,“ sagði Jason og benti á uppþornað lík sem lá á einhverskonar altari. Tennurnar stungust út í gegnum þunna, gráfjólubláa húðina og augun voru horfin. Miguel fraus en náði síðan að segja að hann þyrfti að fara út til að hugleiða. Hann ætlaði að taka son sinn með en aðrir safnaðarmeðlimir stöðvuðu hann því þeir óttuðust að hann ætlaði að stinga af með peningana þeirra. Þeir leyfðu honum ekki að taka soninn með og því yfirgaf hann hjólhýsið einn og ók rakleiðis til næstu lögreglustöðvar.
Lögreglumenn héldu að hann væri ruglaður þegar hann sagði þeim frá uppþornuðu augnalausa líkinu og að tveggja ára syni hans væri haldið föngnum. „Þetta er lík. Þetta er eins og í kvikmynd. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt,“ sagði hann.
Að lokum voru lögreglumenn sendir á vettvang. Þar hittu þeir blíða og ánægða meðlimi Love Has Won sem sögðust reiðubúnir til að fara til fimmtu víddarinnar. „Hún er ekki dáin. Hún er upprisin,“ sögðu þeir.
Auk litla drengsins var 13 ára stúlka í hjólhýsinu. Sjö safnaðarmeðlimir, þar á meðal Jason, voru handteknir grunaðir um ósæmilega meðferð á líki og ofbeldi gagnvart börnunum tveimur.
Rannsókn leiddi í ljós að Amy hafði drukkið mikið af jónuðu silfurvatni. Love Has Won hafði selt slíkt vatn sem lækningu gegn COVID-19 en yfirvöld höfðu stöðvað söluna. Jónað silfurvatn er markaðssett sem „sýklalyf náttúrunnar“ og bætiefni en eftir því sem yfirvöld í mörgum löndum segja þá er ekkert heilnæmt við að drekka vatnið og getur það valdið nýrnaskaða, magavandamálum, höfuðverk, þreytu og húðvandamálum. Við langvarandi neyslu verður húð fólks varanlega bláleit eða grá.
Lögreglan vinnur enn að rannsókn málsins en kenning hennar er að safnaðarmeðlimir hafi neitað Amy um mat og lyf til að undirbúa uppstigninguna sem átti að færa þá til fimmtu víddarinnar. Safnaðarmeðlimirnir ganga lausir.
Í lok maí birti Jason myndband þar sem hann réðst harkalega á þá safnaðarmeðlimi sem höfðu yfirgefið söfnuðinn. Hann réðst einnig á Miguel og sagði hann hafa tekið alla fjármuni safnaðarins.
Nú hefur vefsíðu Love Has Won verið lokað og YouTube-rásin og Facebooksíðan hafa fengið nýtt nafn og heita nú „5D Full Disclosure“. Safnaðarmeðlimir búa nú í tjaldi og lifa á matargjöfum frá góðhjörtuðu fólki. Þeir senda út í beinni útsendingu oft á dag og biðja um fjárframlög og reyna að fá fólk til liðs við söfnuðinn. Nú er það Faðir Guð, Jason Castillo, sem er leiðtogi þeirra.