Hárnálar eru litlar og mjög praktískar fyrir þá sem þurfa að halda hárinu frá andlitinu. En það er sama hvað gert er til að geyma þær alltaf á sama staðnum, það gengur ekki vel eða lengi og áður en þú veist eru þær allar horfnar.
Hárteygjur hljóta oft sömu örlög og hárnálar og hverfa bara upp úr þurru en einnig eiga vinkonur til að fá þær lánaðar og svo gleymist að skila þeim og fljótlega glímir þú við hárteygjuskort.
Svo eru það sokkarnir. Hver kannast ekki við að hafa átt gott sokkapar, það fór síðan í þvott og aðeins annar sokkurinn skilaði sér aftur. Hvað varð um hinn? Það er ein af stóru ráðgátum heimsins.
Vettlingar eru líklega náskyldir sokkum, að minnsta kosti eiga þeir til að hverfa á dularfullan hátt og það kemur sér auðvitað illa þegar við ætlum út í kulda.
Kveikjarar eiga það einnig til að hverfa. Ef þú notar kveikjara nálægt reykingafólki þá máttu alveg reikna með að hann hverfi, það vantar alltaf eld.
Naglaklippur eiga það til að hverfa og finnast ekki þegar mest á ríður að klippa ótrúlega langar neglur.
Pennar og blýantar hverfa eiginlega alltaf þegar verst á stendur og nauðsynlegt er að skrifa eitthvað hjá sér. Kannski er bara best að festa þá við sig með spotta?