Í nýrri heimildarmynd skýrir hún frá þeim örlagaríku klukkustundum sem breyttu lífi hennar að eilífu. ABC News skýrir frá þessu.
Fabienne var á leið heim með vinkonu sinni þann 13. maí 1992 í Charleston í Vestur-Virginíu þegar hún kom auga á ungan mann undir brú. Hann hélt á skilti þar sem hann bað um mat. Hann var einnig með ljósmynd af eiginkonu sinni og börnum. Fabienne vorkenndi manninum og ákvað að gefa honum mat og hlý föt. Hún bað hann um að bíða fyrir utan íbúð hennar á meðan hún færi inn að sækja þessa hluti. „Ég held að það hafi verið þá sem hann fór inn í íbúðina og náði í hnífinn,“ segir hún.
Á örskotsstund hafði þessi dularfulli maður gripið hníf í eldhúsinu og læst útidyrunum. Hann læddist aftan að henni og yfirbugaði hana og sagði: „Gerðu það sem ég segi og þá meiðist þú ekki.“
Því næst neyddi hann Fabienne til að fara inn á baðherbergi og beindi hnífnum að henni. „Í upphafi hugsaði ég: „Ókei, ég kemst í gegnum þetta. Ég kemst í gegnum þetta og hann fer og allt verður aftur í lagi.““ segir Fabienne.
Þegar maðurinn sagðist ætla að nauðga henni ákvað hún að berjast á móti. Hún horfði í kringum sig og sá önd úr keramiki. „Ég greip öndina og hugsaði: „Í kvikmyndum líður alltaf yfir fólk ef það fær högg á höfuðið. Það missir meðvitund.“ Svo ég tók öndina og byrjaði að lemja hann í höfuðið hvað eftir annað . . . en hann stóð bara þarna áfram,“ segir hún.
En hún gafst ekki upp við þetta og náði að taka hnífinn af manninum og stinga hann margoft en hann sló hana og náði í stól sem hann lamdi hana í höfuðið með. Hún missti meðvitund og rankaði ekki við sér fyrr en lögreglu- og sjúkraflutningamenn voru komnir í íbúðina. Hún var flutt á sjúkrahús í skyndi. Hún áttaði sig strax á að hún hafði bjargað lífi sínu en hún hafði ekki hugmynd um hver árásarmaðurinn var.
Rannsókn leiddi í ljós að það var Tommy Lynn Sells sem hafði ráðist á Fabienne. Hún særði hann illa og hann þurfti að leggjast inn á sjúkrahús. Hann hlaut dóm fyrir árásina á hana og var dæmdur í nokkurra ára fangelsi en á þessum tíma grunaði lögregluna ekki að hann væri raðmorðingi. Það var ekki fyrr en sjö árum eftir árásina á Fabienne sem hann var handtekinn grunaður um morð. Hann var dæmdur fyrir eitt morð en lögreglan telur að hann hafi banað að minnsta kosti 22. Í yfirheyrslum sagði hann lögreglunni að hann hafi framið fyrsta morðið þegar hann var 16 ára.
Tommy Lynn Sells var tekinn af lífi 3. apríl 2014.