Meðal almennings hefur hugmyndin um að taka upp skyldubólusetningu gegn kórónuveirunni notið vaxandi stuðnings að undanförnu en ósennilegt má teljast að sú leið verði farin á næstunni. Ástæðan er að pólitískt séð er landið ekki byggt upp á mikilli miðstýringu, sambandsríkin hafa sjálf rúm völd um aðgerðir, og vegna stjórnarmyndunarviðræðnanna sem standa yfir. Skiptir þá engu þótt rauð aðvörunarljós blikki ótt og títt um allt landið.
„Bólusetningarhlutfallið er of lágt. Við erum á eftir áætlun með örvunarbólusetningarnar. Sýnatöku hefur verið hætt. Það er engin áætlun,“ skrifaði Christian Endt, blaðamaður hjá vikublaðinu Die Zeit, á Twitter.
Verst er ástandið í suðurhluta landsins og suðausturhluta þess, í Bæjaralandi, Sakslandi og Thüringen. Dæmi eru um að flytja hafi þurft alvarlega veikt fólk mörg hundruð kílómetra leið í sjúkrabílum til að koma því á sjúkrahús þar sem sjúkrahúsin í heimahéruðum þess eru yfirfull.
Það er ekki hægt að segja að aðgerðir Þjóðverja gegn veirunni hafi verið áhrifamiklar eða samræmdar. Þar sem miðstýringin er ekki eins mikil og við eigum til dæmis að venjast á Norðurlöndunum þá eru margir sem koma að ákvarðanatökunni og yfirvöld í sambandsríkjunum eiga oft í togstreitu við ríkisstjórnina og yfirvöld sem starfa á landsvísu. Að auki er töluverður hluti þjóðarinnar efins um aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn veirunni.
Um 69% Þjóðverja hafa lokið bólusetningu og stendur landið öðrum stórum ESB-ríkjum töluvert langt að baki hvað þetta varðar. Í Frakklandi, Ítalíu og Spáni er hlutfallið 76-81% samkvæmt tölu frá Our World in Data.
En vegna þess hversu slæm fjórða bylgja faraldursins, sem nú ríður yfir Þýskaland, hefur verið hafa margir skipt um skoðun hvað varðar hugsanlega bólusetningarskyldu. Í ágúst sögðust 46% aðspurðra vera hlynntir skyldubólusetningu. Í nýrri könnun sem var gerð fyrir Tagesschau var hlutfallið komið í 57%.
Í miðju hins pólitíska litrófs er skýr meirihluti fyrir skyldubólusetningu. 73% kjósenda Kristilegra demókrata, flokks Angelu Merkel, eru hlynntir því en yst til hægri og vinstri er staðan allt önnur og fáir sem aðhyllast skyldubólusetningu.
Jens Spahn núverandi heilbrigðisráðherra er úr flokki Kristilegra demókrata og er hann ekki hrifinn af hugmyndinni um skyldubólusetningu. „Skyldubólusetning myndi rífa landið okkar í sundur,“ sagði hann í samtali við Spiegel.