fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Pressan

Dularfulla jólaráðgátan – Hvað varð um börnin fimm?

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 14. nóvember 2021 22:00

Maurice 14 ára, Martha 12 ára, Louis 9 ára, Jennie Irene 8 ára og Betty 5 ára.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ljósin á jólatrénu lýstu í hlýrri stofunni. Stóra timburhús George og Jennie var fullt af ást, barnshlátri og nýjum leikföngum, það var aðfangadagskvöld. En þegar kom fram á jólanóttina sjálfa átti röð óútskýrðra atburða sér stað. Á jóladag hafði fækkað um fimm í fjölskyldunni. Fimm börn voru horfin sporlaust. Hvað varð af þeim?

Georgio Soddu fæddist á ítölsku eyjunni Sardiníu 1895. Hann flutti til Bandaríkjanna aðeins 13 ára að aldrei og ákvað þá að framvegis myndi hann heita George Sodder.  Eftir nokkur ár sem lausamaður hér og þar fékk hann fast starf í bænum Smithers í Vestur-Virginíu sem bílstjóri. Nokkrum árum síðar átti hann orðið sitt eigið flutningafyrirtæki.

Margir íbúar bæjarins voru af ítölskum uppruna, þeirra á meðal Jennie Cipriani sem fæddist 1903 í Troja á Ítalíu. Þau urðu par og fluttu inn í stórt timburhús nokkra kílómetra utan við Fayetteville. Það var lítill bær, aðalgatan um 90 metrar á lengd. 1920 bjuggu 659 manns í bænum.

Fyrsti sonur þeirra fæddist 1923 og á næstu árum bættist fjöldi barna við. 1943 áttu þau orðið 10 börn; John Frederic, Joseph Samuel, Mary Ann, George, Maurice, Martha, Louis, Jennie Irene, Betty og Sylvia. Rekstur fyrirtækis George gekk vel svo þau gátu séð fjölskyldunni farborða.

Undarlegir atburðir

Síðari heimsstyrjöldin skall á og George dró enga dul á andúð sína á nasistum og Mússóliní og ítölskum fasistum. Þetta fór ekki framhjá mörgum í þessum litla bæ þar sem svo margir Ítalir bjuggu.

Í október 1945, hálfu ári eftir að Mússólíni var tekinn af lífi, var bankað heima hjá fjölskyldunni. Það var tryggingasölumaður sem vildi selja George líftrygginu en hann hafði engan áhuga á að kaupa slíka tryggingu. Það féll ekki í góðan jarðveg hjá sölumanninum sem varð ógnandi í framkomu og hann gerði George ljóst að hann hefði aðrar skoðanir á Mússólíni en hann. „Húsið þitt mun brenna og börnin þín verða drepin. Þú skalt fá að borga fyrir þá ljótu hluti sem þú hefur sagt um Mússólíni,“ sagði sölumaðurinn.

En þetta var ekki það eina sem gerðist. Dag einn stóð ókunnugur maður við húsið. Hann var atvinnulaus og vildi fá vinnu hjá George. Hann gekk um lóðina og fór aftur fyrir hús. Þar benti hann á rafmagnstengibox á veggnum og sagði: „Þetta mun valda bruna dag einn.“ George hafði þá nýlega fengið rafvirkja til að fara yfir tengiboxið. Maðurinn fékk ekki vinnu hjá George.

Aðfangadagskvöld

Desember gekk í garð og jólin nálguðust og þar með jólafrí hjá börnunum. Dag einn uppgötvaði Joseph Samuel, næst elsti sonurinn, að ókunnugur maður fylgdist með systkinum hans. Maðurinn hafði lagt bíl sínum við þjóðveginn og fylgdist þaðan með börnunum.

En þrátt fyrir þá óvenjulegu og óþægilegu atburði sem höfðu átt sér stað um haustið komu jólin eins og þau gera ár hvert. Börnin fengu að vaka lengur um kvöldið til að njóta gjafanna og hátíðarinnar. Það fengu þau gegn því skilyrði að tveir drengjanna myndu fóðra kýrnar og læsa hænsnakofanum áður en þeir færu til hátta. Jennie fór síðan að hátta og tók yngsta barnið með sér. George og elstu synirnir tveir voru þegar farnir í háttinn, voru uppgefnir eftir erfiðan og langan vinnudag.

Um klukkan hálf eitt á jólanótt vaknaði Jennie við að síminn hringdi. Hún heyrði hlátur og glasaglamur. Konurödd spurði eftir ókunnugum manni. Jennie sagði að hún hlyti að hafa hringt í rangt númer og heyrði konuna hlæja áður en hún lagði á. Hún sá að elsta dóttirin, Marian, svaf í stofusófanum og taldi að hin fimm börnin væru sofandi uppi á lofti. Áður en hún fór aftur upp í tók hún í útidyrnar og uppgötvaði að þær voru ólæstar. Hún læsti, dró fyrir stofugluggana og slökkti ljósin.

Hún var nýsofnuð þegar hún hrökk upp við hávært hljóð. Að þessu sinni var það frá þakinu, eins og háar drunur og síðan heyrðist hljóð eins og eitthvað rúllaði. Hún heyrði að eitthvað lenti á jörðinni. Klukkan var 1. Hún hlustaði en heyrði ekkert meira og sofnaði aftur. En þegar hún vaknaði næst, hálfri klukkustund síðar, upplifði hún mestu martröð lífs síns. Húsið var alelda.

Hún vaknaði við reykjarlykt. Rauk fram úr og reif upp dyrnar á næsta herbergi. Þar léku eldtungur um gólfið og mikill svartur reykur var í herberginu. Jennie öskraði af öllum lífs og sálarkröftum. Marian vaknaði og áttaði sig strax á hvað var að gerast. Hún hljóp inn í svefnherbergi og greip yngstu systur sína með og fór út í ískalda nóttina.

Jennie hljóp að stiganum, sem lá upp á aðra hæð, og öskraði og öskraði. Elstu synirnir tveir komu hlaupandi niður með glóð í hárinu og logandi föt. Stiginn varð alelda.

George var kominn út og reyndi að fá vatn til að renna úr krana en það var frosið í leiðslunum. Hann var illa skotinn á handlegg. Hann sá Jennie, Sylvia litlu, Marian, Joseph Samuel og George standa úti. En hvar voru hin fimm börnin?

Marian hljóp til nágrannanna til að hringja í slökkviliðið. George hljóp til að ná í stigann, sem hékk alltaf á sama stað, en hann var horfinn. Hann ákvað þá að aka bílum fjölskyldunnar upp að húsinu og nota þá til að klifra upp. En hvorugur bíllinn fór í gang. George stóð eftir búinn að missa alla von.

45 mínútum eftir að Jennie vaknaði var húsið brunnið til grunna.

Engar líkamsleifar

Klukkan átta um morguninn, sjö klukkustundum eftir að Marian hringdi í slökkviliðið, kom það loks á staðinn en það var ekkert til að slökkva.  Slökkviliðsstjórinn sagðist ekki hafa verið í ökuhæfu ástandi og hafi orðið að bíða eftir að finna einhvern sem gat ekið.

Slökkviliðið fór í gegnum brunarústirnar. Þar sem fimm barna var saknað var talið að líkamsleifar myndu finnast. En engar líkamsleifar fundust.

Húsarústirnar. Mynd:Doug MacGowan

Komist var að þeirri niðurstöðu að galli í tengiboxinu hafi orsakað eldsvoðann. Fjölskyldan var þessu ósammála og taldi að eldurinn hefði átt upptök sín á þakinu því Jennie hafði heyrt hljóð þar. Þann 30. desember voru börnin fimm úrskurðuð látin.

Þeim var fylgt til grafar þremur dögum síðar þrátt fyrir að engar líkamsleifar hefðu fundist. Foreldrarnir gátu ekki verið viðstödd, orkuðu það ekki vegna hinnar miklu sorgar.

Grunsemdir

Jennie fór að brenna matarafganga í rannsóknarskyni. Hún setti svínakótelettur og kjúklinga í arininn. Þegar eldurinn var slokknaður voru alltaf bein eftir í öskunni. Hún las um annan eldsvoða í dagblaði. Þriggja hæða hús hafði brunnið til grunna og sjö létust. Líkamsleifar allra fundust. Hún ræddi við starfsmann líkbrennslu sem sagði henni að líkamar, sem brenna við 1.093 gráður í tvær klukkustundir, skilji eftir sig bein. Húsið hennar brann í 45 mínútur.

Jennie og George voru sannfærð og töldu að kveikt hefði verið í húsinu til að leyna því að börnin voru numin á brott. Það styrkti trú þeirra á þessu að bílarnir höfðu ekki farið í gang og að stiginn var horfinn.

Auglýst var eftir börnunum.

Mörg vitni gáfu sig fram við lögregluna. Meðal annars strætisvagnastjóri sem sagðist hafa séð fólk utan við húsið og hafi það kastað því, sem hann lýsti sem eldkúlum, í það. Margir sögðust einnig hafa séð börnin á lífi eftir brunann. Starfsmaður á upplýsingaskrifstofu fyrir ferðamenn sagðist hafa borið mat á borð fyrir börnin á jóladag. Fyrir utan hafi verið bíll sem var með skráningarnúmer frá Flórída.

Viku eftir brunann sagði kona ein hafa séð fjögur af börnunum fimm á hóteli í Charleston. Þau hefðu verið í fylgd tveggja karla og tveggja kvenna, allt hafi fólkið verið af ítölskum ættum.  Hún sagðist hafa reynt að tala vinsamlega við börnin en mennirnir hafi verið fjandsamlegir og hafi ekki leyft börnunum að tala. Fleiri vitni gáfu sig fram með margvíslegar frásagnir.

Rannsókn

George reyndi að fá alríkislögregluna FBI til að rannsaka málið en hún hafnaði því þar sem málið heyrði undir staðaryfirvöld.

George og Jennie réðu því einkaspæjarann C.C. Tinsley til starfa. Ekki leið á löngu áður en hann komst að svolitlu sem vakti áhyggjur. Það var að meðal kviðdómendanna sem úrskurðuðu að galli í tengiboxinu hafi valdið eldinum var tryggingasölumaðurinn  sem var nefndur hér að ofan.

Tinsley fékk einnig slökkviliðsstjórann til að játa að hann hefði sett nautalifur í trékassa og grafið í húsarústunum. Það gerði hann í þeirri von að George myndi finna hann og telja að um hjarta væri að ræða. Þetta átti að sannfæra hann um að börnin hefðu látist í eldsvoðanum.

George hélt áfram að rannsaka málið og fylgdi öllum ábendingum, sem bárust, eftir. Hann fór í skóla í mörgum ríkjum og heim til foreldra sem áttu börn sem líktust börnunum hans. En þetta skilaði engum árangri.

Dularfullur beinafundur

1949 ákvað fjölskyldan að láta fara yfir öskuna úr brunarústunum á nýjan leik. Til þess fengu þau Oscar B. Hunter, meinafræðing, frá Washington. Hann fann eitt og annað sem rannsakendum hafði yfirsést fjórum árum áður. Þar á meðal fjóra hryggjarliði.

Þeir voru sendir til rannsóknar og var niðurstaða hennar að þeir væru úr manneskju á aldrinum 16 til 17 ára. hryggjarliðirnir höfðu ekki lent í miklum hita og því var útilokað að þeir væru úr elsta syninum, sem var saknað, Maurice sem var 14 ára þegar húsið brann. Niðurstaðan var því að hryggjarliðirnir hefðu verið í jarðveginum sem George notaði til að hylja rústirnar. En aldrei hefur fengist úr því skorið úr hverjum þessir hryggjarliðir voru.

Misstu sjötta barnið

1951 varð Jennie barnshafandi á nýjan leik. Þann 30. desember ól hún dreng sem lést samdægurs af völdum súrefnisskorts til heilans. Hann fékk nafnið Michael Sodder.

1956 ákváðu Jennie og George að koma upp auglýsingum með fram þjóðvegi 16 með myndum af börnunum og loforði um 10.000 dollara verðlaunum fyrir upplýsingar um afdrif þeirra.

Þeim barst fjöldi bréfa í framhaldi af þessu. Fólk sagðist hafa séð börnin í hinum ýmsu ríkjum. Foreldrarnir fylgdu öllum ábendingum eftir en það skilaði engum árangri. 1968 barst bréf stílað á Jennie Sodder. Það var póstimplað í Kentucky. Ekkert kom fram um hver sendi það. Í umslaginu var svarthvít mynd af manni á þrítugsaldri. Aftan á myndinni stóð: „Louis Sodder. I love brother Frankie. llil boys. A90132 or 35.“

Jennie og George sáu engan svip með manninum og Louis frá því að hann hvarf 9 ára. Var þetta mynd af honum fullorðnum? Þau réðu annan einkaspæjara til starfa og sendu hann til Kentucky. En spæjarinn hvarf og þau heyrðu aldrei aftur frá honum.

Maðurinn á dularfullu myndinni.

Óvissan

George ræddi um málið við Sunday Gazett-mail árið 1968 en þá var hann orðinn 72 ára. Hann sagði söguna og hversu erfitt þetta hefði verið og væri: „Það er erfitt að sofa á nóttunni, ég hugsa bara um þau. Ef einhver vildi skaða mig, af hverju tóku þeir þá fjölskyldu mína? Þetta er eins og múrveggur, við komumst ekkert áleiðis. Við vitum ekki lengur hvað við eigum að gera. Svo lengi sem við lifum, munum við halda áfram að leita til að fá svör við hvað gerðist í eldsvoðanum fyrir 23 árum.“

Hann lést ári síðar. Hann eyddi síðustu 24 æviárunum í að leita að börnunum sínum en fékk aldrei svarið við hvað varð um þau. Hann lést sannfærður um að þau hefðu ekki dáið í eldsvoðanum þetta kalda og skelfilega jólakvöld.

Jennie lést 20 árum síðar. Á þeim 44 árum sem voru liðin síðan börnin hurfu klæddist hún aldrei öðru en svörtum fatnaði. Hún syrgði börnin daglega í öll þessi ár.

Hvað varð um börnin?

Enn er fjöldi kenninga á lofti um hvað varð um börnin. Sumir telja að ítalska mafían hafi átt hlut að máli því George hafi flutt til Bandaríkjanna frá Ítalíu og hafi aldrei rætt um fortíð sína þar. Númerið 90132 var í lok sjöunda áratugarins póstnúmer i Palermo á Sikiley. Aðrir telja að börnunum hafi verið rænt og þau seld og að staðarlögreglan hafi aðstoðað við það.

En líklega upplýsist aldrei hvað varð um börnin fimm þessa nótt. Þau Maurice 14 ára, Martha 12 ára, Louis 9 ára, Jennie Irene 8 ára og Betty 5 ára.

Byggt á umfjöllun Sunday Gazette-Mail, Smithsonian Magazine, Wikipedia og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Þessi mistök gera flestir á klósettinu – Gerir þú þau?

Þessi mistök gera flestir á klósettinu – Gerir þú þau?
Pressan
Fyrir 2 dögum

Hryllilegar heimilisaðstæður enduðu með fjölskylduharmleik – „Tilhugsunin um að þeir hafi grátið og öskrað mun ásækja mig að eilífu“

Hryllilegar heimilisaðstæður enduðu með fjölskylduharmleik – „Tilhugsunin um að þeir hafi grátið og öskrað mun ásækja mig að eilífu“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fá 170 milljónir í bætur – Læknar skildu blæðandi konu eftir og fóru á barinn

Fá 170 milljónir í bætur – Læknar skildu blæðandi konu eftir og fóru á barinn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Dularfullt hvarf tvíburasystra – Lögreglan birtir síðustu skilaboð þeirra

Dularfullt hvarf tvíburasystra – Lögreglan birtir síðustu skilaboð þeirra
Pressan
Fyrir 4 dögum

Trump hótar Pútín – „Við getum farið auðveldu leiðina, eða erfiðu leiðina“

Trump hótar Pútín – „Við getum farið auðveldu leiðina, eða erfiðu leiðina“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Játar að hafa myrt þrjú börn í enskum dansskóla

Játar að hafa myrt þrjú börn í enskum dansskóla