Sky News skýrir frá þessu og segir að Gates hafi sagt þetta í samræðum við Jeremy Hunt, formann heilbrigðisnefndar breska þingsins, á vegum hugveitunnar Policy Exchange. Hann sagði að stjórnvöld um allan heim verði að setja milljarða í rannsóknir og þróunarvinnu til að heimsbyggðin verði betur í stakk búin til að takast á við næsta heimsfaraldur og lífefnaárásir hryðjuverkamanna.
Gates hvatti einnig til að Heimsfaraldursviðbragðsteymi verði sett á laggirnar á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO og að milljarðar dollara yrðu settir í það verkefni. Hann sagði að líklega þurfi slíkt teymi um milljarð dollara á ári til að sinna eftirliti, undirbúningi og æfingum.
Hann varpaði fram þeirri spurningum hvað muni gerast ef hryðjuverkamaður fari á 10 flugvelli og hafi stórubóluveiru með í för. „Þú veist, hvernig mun heimurinn bregðast við því?“ sagði hann.
„Það eru náttúrulegir faraldrar og lífefnahernaðarfaraldrar sem geta jafnvel verið verri en sá sem við glímum við núna en samt sem áður ættu framfarir í læknavísindum að færa okkur verkfæri svo við gætum staðið okkur miklu betur,“ sagði hann og bætti við að lönd á borð við Bandaríkin og Bretland verði að verja tugum milljarða í rannsóknar- og þróunarvinnu til að undirbúa sig undir næsta heimsfaraldur.
Einnig sagði hann að rannsóknar- og þróunarvinna sé dýr þá geti hún leitt af sér aðrar framfarir, til dæmis að hægt verði að gera út af við hefðbundnar inflúensu og kvef.