The Guardian skýrir frá þessu. Fram kemur að genið breyti viðbrögðum lugnanna við sýkingu. Þetta er hættumesta erfðafræðilegi áhættuþátturinn sem hefur fundist til þessa í tengslum við COVID-19. Um 60% fólks, sem á rætur að rekja til sunnanverðrar Asíu, er með þetta gen samanborið við 15% fólks af evrópskum uppruna.
James Davies, prófessor og erfðafræðingur við Oxfordháskóla og aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði að þessi uppgötvun geti skýrt af hverju sumt fólk veikist mjög alvarlega þegar það smitast af kórónuveirunni. Þetta eina gen feli í sér töluverða hættu fyrir fólk sem á rætur að rekja til sunnanverðrar Asíu.
Aðrir vísindamenn hafa hvatt til varkárni og segja að frekari staðfestinga sé þörf á niðurstöðunum og að erfðafræðilegar skýringar eigi ekki að skyggja á aðrar hugsanlegar skýringar eins og félagshagfræðilegar skýringar sem minnihlutahópar standa frammi fyrir, þar á meðal vegna starfa sinna eða aðgengis að heilbrigðiskerfinu.
Rannsóknin byggðist á fyrri rannsóknum þar sem kennsl voru borin á gen sem virðast hafa áhrif á alvarleika COVID-19. Erfðamengi mörg þúsund sjúklinga, á sjúkrahúsum í Bretlandi og fleiri ríkjum, voru rannsökuð og beindist leitin að geni sem heitir LZTFL1. Samkvæmt niðurstöðunum tvöfaldar það líkurnar á að öndunarfærin hætti að virka og fólk látist.
Þetta gen hafði ekki verið rannsakað áður en samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar þá kveikir þetta gen á mikilvægum varnarviðbrögðum sem koma í veg fyrir kórónuveiran komist inn í þekjufrumur sem tengjast lungunum. En það er til „hááhættu“ afbrigði af þessu geni sem dregur úr viðbrögðum þess sem gerir að verkum að veiran getur komist inn í þekjufrumurnar og síðan sýkt og skemmt frumur í lungunum.
Davies sagði að þrátt fyrir að við getum ekki breytt erfðamengi okkar þá sýni niðurstöðurnar að fólk með „hááhættu“ afbrigðið hafi líklega mikið gagn af bólusetningu gegn kórónuveirunni. „Þar sem þetta hefur frekar áhrif á lungun en ónæmiskerfið þá þýðir það að þessi aukna hætta ætti að hverfa við bólusetningu,“ sagði hann.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í vísindaritinu Nature Genetics.