Í rannsókninni skoðuðu vísindamenn frá Peking háskóla og háskólanum í Genf tvö gos í fjallinu. Annað fyrir 840.000 árum og hitt fyrir 75.000 árum. Í báðum þessum gosum varð ekki skyndilegt flæði kviku í kvikuhólf eldfjallsins eins og oftast er raunin fyrir gos. Kvikan safnaðist hægt og hljóðlaust fyrir í kvikuhólfunum áður en gosið hófst.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá vísindamönnunum en rannsókn þeirra hefur verið birt í vísindaritinu PNAS. Science Alert segir að vísindamennirnir hafi komist að niðurstöðu sinni með því að greina zirkon en það myndast í eldgosum og er víða að finna nærri Toba eldfjallinu.
Út frá rannsóknum á zirkoninu gátu vísindamennirnir aldursgreint það og þannig gert tímalínu yfir gosinu og það flæði kviku sem átti sér stað í þeim.
En vísindamennirnir segja ekkert um hvort gos sé yfirvofandi í Toba en þeir telja að nú hafi 320 rúmkílómetrar í kvikuhólfum Toba en lítil eyja, sem er í miðju eldfjallsins, þrýstist upp vegna þess. „Við sjáum að eyjan hækkar smátt og smátt. Það bendir til að eldfjallið sé virkt og að kvika safnist undir því,“ segir Ping-Ping Liu, prófessor við Peking háskóla, í fréttatilkynningunni.
Talið er að 5 til 10 ofureldfjöll séu á jörðinni. Gos í þeim geta haft gríðarlegar afleiðingar á alla heimsbyggðina. Þau eyðileggja allt í næsta nágrenni við eldfjöllin en geta einnig haft mikil áhrif á loftslagið. Fyrri rannsóknir benda til að gos í Toba hafi valdið tíu ára löngum vetri um allan heim.