BBC segir að hann hafi fengið sér sundsprett þennan dag en hann og eiginkonan voru vön að fá sér sundsprett á þessum stað tvisvar til þrisvar í viku. En á laugardaginn réðust tveir hákarlar á Paul og drápu hann. Eiginkonan, sem hefur ekki viljað koma fram undir nafni í fjölmiðlum, var í búningsklefanum þegar þetta gerðist.
„Hann var stór, virtist vera hvíthákarl,“ sagði sjónarvottur í samtali við The West Australian um annan hákarlinn.
Nokkrir piltar voru á siglingu nærri Paul þegar ráðist var á hann. Þeir reyndu að aðvara aðra strandgesti og fá þá til að fara upp úr.
Eiginkona Paul sagði að hann hafi ætlað að synda einn kílómetra þennan dag. „Hann dó við að gera það sem hann elskaði mest,“ sagði hún. Hún sagði einnig að erfitt væri að skilja hvað gerðist en þrátt fyrir að hafa misst eiginmann sinn sagðist hún vera ánægð með að fleiri slösuðust ekki.
„Ég sendi piltunum í bátnum sérstakar þakkir fyrir það sem þeir gerðu, þetta hlýtur að hafa verið hryllileg lífsreynsla fyrir þá. Hugur minn er hjá þeim,“ sagði hún.
Mikil leit var gerð að Paul en það eina sem fannst voru sundgleraugun hans.