Hann var handtekinn eftir að tollverðir fundu 5,5 milljónir danskra króna í reiðufé í ferðatösku hans. Þetta svarar til um 110 milljóna íslenskra króna.
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem ferðalangur er handtekinn á Kastrup með milljónir í farteskinu. Báðir voru þeir á leið úr landi.
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til loka nóvember á laugardaginn en hann er grunaður um peningaþvætti og hylmingu. Hann er á fimmtugsaldri. Lögreglan hefur ekki viljað skýra frá hvert hann var að fara.
Um miðjan október var maður á sama aldri handtekinn á Kastrup þegar hann ætlaði til Tyrklands. Hann var með 3,5 milljónir danskra króna í reiðufé í ferðatöskunni sinni. Hann situr nú í gæsluvarðhaldi, grunaður um peningaþvætti og hylmingu.