Miklar umræður hafa spunnist um þetta á samfélagsmiðlinum Reddit og eru skiptar skoðanir um holuna góðu. Sumir telja að um leynilega herstöð sé að ræða, aðrir að hér sé um hlið að öðrum heimi að ræða og enn aðrir vita eiginlega ekki hvað þeir eiga að halda.
„Hvað í helvíti. Þetta líkist ekki eyju,“ skrifaði einn notandi og margir tóku undir þessa skoðun hans. Aðrir sögðust telja að um eyju væri að ræða sem af einhverri ástæðu væri haldið leyndri og hefði því verið eytt af netinu. „Þetta lítur út fyrir að hafa verið ritskoðað,“ sagði einn.
Sumir höfðu aðrar skýringar á þessu og töldu náttúrulegar orsakir geta skýrt þetta. „Þetta gæti verið neðansjávareldfjall sem veldur þessu svarta, ef það er ekki hola. En líklegast er þetta einhver bergtegund,“ skrifaði einn.
Enn aðrir fóru aðrar leiðir við að finna skýringu á þessu og sögðu þetta geta verið Bermúdaþríhyrninginn eða inngangur að holrými í jörðinni en til er fjöldi samsæriskenninga sem gengur út á að jörðin sé hol að innan.
En það eru aðrar og mun jarðtengdari skýringar á þessu fyrirbæri sem er í raun ekki svo dularfullt.
Þetta er einfaldlega eyjan Vostok sem er óbyggð og er norðaustan við Nýja-Sjáland. Hún tilheyrir lýðveldinu Kiribati.