Samkvæmt frétt The Guardian þá kom mikill kippur í bólusetningarnar rétt áður en fresturinn rann út og það þrátt fyrir að hægrisinnaðir stjórnmálamenn og fjölmiðlar hafi rekið harðan áróður gegn kröfunni og mótmælt hafi verið í ráðhúsinu. Á föstudaginn var bólusetningarhlutfallið komið í 83% hjá lögreglumönnum, slökkviliðsmönnum, sorphirðumönnum og öðrum borgarstarfsmönnum sem fyrirmælin ná til. Daginn áður var hlutfallið 76%.
Þeir borgarstarfsmenn, sem ekki hafa enn látið bólusetja sig, verða sendir í launalaust leyfi frá og með deginum í dag. Þetta mun væntanlega hafa í för með sér að loka verður nokkrum slökkvistöðvum, lögreglustöðvum og draga úr sjúkraflutningum. Einnig má búast við að sorphirða fari úr skorðum og sorp fari að safnast fyrir í borginni.
Mikill kippur kom í bólusetningar slökkviliðsmanna og sorphirðumanna á föstudaginn þegar þeir reyndu að ná bólusetningu áður en fresturinn rann út. Sem auka hvatningu fengu þeir 500 dollara ef þeir létu bólusetja sig fyrir klukkan 20. Hlutfall bólusettra slökkviliðsmanna hækkaði um 8% og hjá hreinsunardeildinni hækkaði það um 10%. Hjá bæði slökkviliðinu og hreinsunardeildinni eru 23% starfsmanna enn óbólusettir. Hjá lögreglunni bættust 5% í hóp bólusettra á föstudaginn en nú eru 16% starfsmanna lögreglunnar óbólusettir.