„Við stöndum frammi fyrir stærsta fjármálahruni sögunnar. Skuldir eru alltof miklar og alltof miklu hefur verið dælt af peningum inn í kerfið. Skuldirnar eru algjörlega óyfirsjáanlegar í hlutfalli við brúttóþjóðarframleiðslu. Þetta mun springa,“ sagði hann nýlega í samtali við Kitco News.
Kiyosaki hefur skrifað fjölda bóka um fjárfestingar og þar á meðal metsölubókina Rich Dad Poor Dad. Nú segir hann að við séum nú þegar komin svo langt að ekki sé hægt að snúa þróuninni við og að verð hlutabréfa, Bitcoin, gulls og silfurs muni hrynja innan skamms tíma.
„Ríkin hafa dælt gervipeningum inn í kerfið. Það þýðir að vöruverð hækkar. Þetta er kannski bara skammvinn verðbólga en við stöndum eftir með gríðarlegar skuldir sem verður að greiða. Það eina sem gerviörvun hefur haft í för með sér er að hlutabréfamarkaðurinn og húsnæðismarkaðurinn eru að nauðsynjalausu orðin að bólu sem mun springa,“ sagði hann. Hann vísar þarna til gríðarlega stórra örvunarpakka sem ríkisstjórnir um allan heim hafa dælt inn í hagkerfin til að örva þau. Þetta eru peningar sem voru teknir að láni.
Hann hvetur fólk því til að sýna varkárni í hlutabréfaviðskiptum. „Við stöndum frammi fyrir spilaborg sem mun hrynja. Bæði fasteignaverð og hlutabréfamarkaðurinn munu hrynja. Það er vegna Evergrande í Kína en það mun teygja sig til Bandaríkjanna og bætast við þau alvarlegu vandamál sem fyrir eru,“ sagði hann.