Á fjórum dögum hafa kínverskar herflugvélar rofið lofthelgi Taívan 148 sinnum. Su Tseng-chang, forsætisráðherra, sagði í gær að Kínverjar „fari yfir strikið“ með hernaðarbrölti sínu.
Joseph Wu, utanríkisráðherra, sagði á mánudaginn að ríkisstjórnin hefði áhyggjur af að Kínverjar muni ráðast á Taívan einhvern tímann í framtíðinni. Hann sagði að Xi Jinping, forseti Kína, sé undir þrýstingi innanlands og því sé ekki útilokað að hann blási í herlúðra gagnvart Taívan til að beina athyglinni frá vandamálum innanlands. „Við höfum miklar áhyggjur af að óánægja og efnahagsleg niðursveifla verði svo mikil að Taívan geti orðið skotmark,“ sagði Wu í þættinum „China Tonight“ og átti þar við að Kínverjar myndu ráðast á Taívan.
Áður fyrr var það sjaldgæft að kínverskar herflugvélar færu inn í lofthelgi Taívan en það hefur hins vegar færst í vöxt á undanförnum misserum. Kínverjar beita þessari aðferð oft til að láta í ljós óánægju sína með eitthvað sérstakt. Kínversk stjórnvöld hafa sagt að flug af þessu tagi séu til þess að vernda fullveldi landsins og séu svar við „samsæri“ Bandaríkjanna og Taívan.
Kínverjar viðurkenna ekki Taívan sem ríki og vilja fá full yfirráð yfir landinu. Lýðræðislega kjörin stjórnin á Taívan telur landið hins vegar vera sjálfstætt land og hefur ekki farið leynt með að gripið verði til varna ef Kínverjar ráðast á landið.