Sænska lögreglan skýrði frá þessu á heimasíðu sinni. Sænskir fjölmiðlar segja að lögreglubíllinn virðist hafa verið á öfugum vegarhelmingi þegar hann lenti framan á vöruflutningabíl um klukkan 15.30 í gær. Við áreksturinn kviknaði í lögreglubílnum og létust þeir þrír sem í honum voru. Ökumaður flutningabílsins, 45 ára karlmaður, var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús.
Anders Thornberg, ríkislögreglustjóri, sagði í tilkynningu í gær að honum hafi verið tilkynnt um slysið og hafi það fyllt hjarta hans af sorg.
Lars Vilks birti árið 2007 teikningu af spámanninum Múhameð í líki hunds. Í kjölfarið hótuðu öfgasinnaðir múslimar honum dauða og naut hann lögregluverndar allt frá því. Ári áður hafði hin svokallaða Múhameðskrísa brotist út í Danmörku eftir að Jótlandspósturinn birti skopmyndir af spámanninum Múhameð.
Í febrúar 2015 var reynt að skjóta Vilks til bana þegar hann kom fram á umræðufundi í Krudttønden í Kaupmannahöfn en þar var rætt um tjáningarfrelsi og guðlast. Danskur kvikmyndagerðarmaður var skotinn til bana þar og nokkrum klukkustundum síðar skaut sami árásarmaðurinn öryggisvörð til bana við bænahús gyðinga í Krystalgade. Árásarmaðurinn var síðan skotinn til bana af lögreglunni.