Franska lögreglan tilkynnti fyrir helgi að hún væri nú hætt leit að raðmorðingja, sem gekk undir heitinu „Le Grêle“ (Maðurinn með örin) eftir að DNA-rannsókn leiddi í ljós hver hann var.
Hann hét François Vérove og var 59 ára fyrrum lögreglumaður. Hann er talinn bera ábyrgð á fjórum morðum og sex nauðgunum hið minnsta á árunum 1986 til 1994. Meðal fórnarlamba hans var 11 ára stúlka sem var myrt í París 1986.
Lítið hefur gerst í rannsókn málsins árum saman en nýlega ákváðu rannsóknarlögreglumenn í París að setja sig í samband við 750 stöðvar herlögreglunnar í Frakklandi. Ýmsar vísbendingar í málinu bentu til að ofbeldismaðurinn gæti verið liðsmaður herlögreglunnar. BBC segir að í þremur nauðgunum hafi hann kynnt sig sem lögreglumann eða herlögreglumann og í einu framvísaði hann skilríkjum með franska fánanum.
Vérove, sem var einmitt fyrrum liðsmaður herlögreglunnar og lögreglumaður, fékk boð þann 24. september um að mæta og láta DNA-sýni í té 5 dögum síðar. Þremur dögum síðar hvarf hann og lét eiginkona hans lögregluna vita. Í kjölfarið fannst lík hans í AirBnb íbúð í bænum Grau–du–Roi og hjá því sjálfsvígsbréf. Ekki hefur verið skýrt opinberlega frá innihaldi bréfsins en franskir fjölmiðlar segja að í því gefi Vérove í skyn að hann hafi framið morð og segist hafa haft „hvatir“. Libération segir að hann hafi skrifað að hann hafi „ekki gert neitt“ síðan 1997. Miðillinn segir einnig að samkvæmt upplýsingum frá saksóknurum þá passi erfðaefni úr manninum við erfðaefni sem fundust á fórnarlömbum.
Lögmaður aðstandenda fórnarlambanna segist telja að fórnarlömbin geti verið mun fleiri en rætt er um. „Við munum aldrei fá að vita um umfang „afbrota“ „La Grêles“,“ sagði lögmaðurinn, Didier Sabier, í samtali við BBC.
Viðurnefni Vérove á rætur að rekja til fyrsta morðsins en það var á hinni 11 ára gömlu Cecile Block í París 1986. Bróðir hennar sagðist hafa verið samferða manni í lyftunni í húsinu, sem fjölskyldan bjó í, daginn sem Cecile var myrt og hafi hann verið með áberandi ör í andliti, eins og eftir bólur eða hlaupabólu. Henni var nauðgað, kyrkt og stungin og lík hennar síðan skilið eftir undir teppi í kjallaranum. Málið vakti mikinn óhug í Frakklandi. Bróðir Cecile aðstoðaði lögregluna við að gera teikningu af morðingjanum og hefur teikningin hangið uppi á vegg hjá morðdeild Parísarlögreglunnar allar götur síðan 1986.