fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Pressan

Helle Thorning-Schmidt segir að fyrrverandi Frakklandsforseti hafi áreitt hana kynferðislega

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 4. október 2021 06:59

Helle Thorning-Schmidt. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag kemur bókin „Blondinens betragtninger“ út í Danmörku en þetta er endurminningabók Helle Thorning-Schmidt fyrrum leiðtoga danskra jafnaðarmanna og fyrrum forsætisráðherra Danmerkur. Í bókinni kemur meðal annars fram að Valéry Giscard d‘Estaing, fyrrum Frakklandsforseti, hafi áreitt hana kynferðislega fyrir tæpum 20 árum.

Þetta gerðist í kvöldverðarboði í franska sendiráðinu í Kaupmannahöfn. D‘Estaing var þá formaður Evrópusáttmálans sem átti að gera uppkast að evrópskri stjórnarskrá eða sáttmála. D‘Estaing var tæplega áttræður þegar þetta átti sér stað en Thorning-Schmidt var á fertugsaldri. Hún tók þátt í vinnunni við gerð Evrópusáttmálans og átti sæti á Evrópuþinginu.

„Í miðju matarboðinu áttaði ég mig á að Giscard d‘Estaing sat og káfaði á lærinu á mér undir borðinu. Þetta var ótrúlegt. Ég hugsaði: Hvað er að gerast? Ég færði mig og þá hætti þetta,“ segir hún í bókinni.

Í samtali við Ritzau sagðist hún ekki telja þetta alvarlegan atburð í samanburði við það sem hefur komið fram í tengslum við Mettoobylgjunar. „Í dag myndi maður taka þessu sem kynferðislegri áreitni en það gerði maður ekki þá. Tímarnir voru aðrir en mér fannst þetta óviðeigandi og reiddist mjög,“ sagði hún.

Hún sagðist hafa ákveðið að skýra frá þessu til að sýna að konur á öllum stigum samfélagsins upplifi óviðeigandi framkomu. „Ég vil einfaldlega sýna að það er ekki bara ein tegund kvenna sem er áreitt. Það getur gerst alls staðar – einnig í fínum matarboðum í sendiráðum. Ég hef einnig upplifað að margir karlar eru mjög hissa á hversu margar konur upplifa óviðeigandi framkomu og ég vil gjarnan sýna að þeir þurfa ekki að vera hissa,“ sagði hún.

Valéry Giscard d‘Estaing var forseti Frakklands á árunum 1974-1981. Hann lést í desember á síðasta ári af völdum COVID-19.

Á síðasta ári sakaði þýsk fréttakona hann um kynferðislega áreitni þegar hún tók viðtal við hann í desember 2018. Hún sagði að hann hafi káfað þrisvar sinnum á henni. Lögmaður forsetans fyrrverandi sagði þá að d‘Estaing myndi ekki eftir þessu.

Í bók sinni skýrir Thorning-Schmidt einnig frá tveimur öðrum málum þar sem tveir „yfirmenn“ koma við sögu. Þessi atvik áttu sér stað á tíunda áratugnum og byrjun aldarinnar þegar hún starfaði fyrir jafnaðarmenn á Evrópuþinginu þar sem hún tók síðar sæti sem þingmaður.

„Í öðru tilvikinu stóð ég og hallaði mér inn yfir borð og var að raða skjölum þegar yfirmaður minn, sem var rúmlega 20 árum eldri en ég, kom inn og sagði eitthvað á þá leið að ég mætti ekki standa svona því þá gæti hann ekki einbeitt sér eða haft stjórn á sér.“

Í hinu tilvikinu gekk annar yfirmaður framhjá henni með samanvafið dagblað og sló í afturenda hennar og hló. Hún nafngreinir mennina ekki og segist aðeins skýra frá þessu til að sýna að þessi óviðeigandi hegðun hafi átt sér stað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Málið sem Pútín hélt að hann gæti þagað í hel

Málið sem Pútín hélt að hann gæti þagað í hel
Pressan
Fyrir 2 dögum

Risastór helíumauðlind í Minnesota gæti leyst skortinn í Bandaríkjunum

Risastór helíumauðlind í Minnesota gæti leyst skortinn í Bandaríkjunum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Sýndu klám á risaskjá í kirkjunni þegar grunnskólabörn voru í heimsókn

Sýndu klám á risaskjá í kirkjunni þegar grunnskólabörn voru í heimsókn
Pressan
Fyrir 4 dögum

Varpa ljósi á nýju Harry Potter þáttaröðina – „Það gengur mjög vel!“

Varpa ljósi á nýju Harry Potter þáttaröðina – „Það gengur mjög vel!“