„Við vonum að það séu ekki óvinir okkar hér á jörðinni sem ráða yfir tækni af þessu tagi,“ sagði Bill Nelson, yfirmaður hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA, nýlega þegar hann ræddi við nemendur við Virginíu háskóla um líkurnar á lífi utan jarðarinnar.
„Hver er ég að segja að plánetan jörðin sé eini staðurinn þar sem líf, sem er eins þróað og skipulagt og okkar, þrífst,“ sagði Nelson. Quartz skýrir frá þessu.
„Eru aðrar plánetur eins og jörðin? Það held ég í alvöru því alheimurinn er svo stór,“ sagði hann einnig.
Hann ræddi einnig um skýrslu um fljúgandi furðuhluti sem var gerð opinber í sumar. Skýrslan var einnig afhent bandaríska þinginu og er sú útgáfa öllu ítarlegri því í henni eru kaflar sem eru ekki ætlaðir almenningssjónum. Í skýrslunni gerði varnarmálaráðuneytið grein fyrir tilfellum þar sem bandarískir herflugmenn hafa séð fljúgandi furðuhluti.
Í skýrslunni kemur ekkert fram sem staðfestir að um hluti á vegum vitsmunavera frá öðrum plánetum sé að ræða en þeim möguleika er heldur ekki hafnað. Í skýrslunni kemur fram að eðlilegar skýringar hafi fundist á 144 tilfellum þar sem bandarískir herflugmenn sáu óþekkta fljúgandi furðuhluti.
Nelson, sem hefur lesið leynilega hluta skýrslunnar, sagði að bandarískir herflugmenn hafi tilkynnt um að minnsta kosti 300 tilfelli þar sem þeir sáu óþekkta fljúgandi furðuhluti frá 2004. „Ég hef rætt við þessa flugmenn og þeir vita að þeir sáu eitthvað og ratsjá þeirra sá það einnig og skyndilega birtist þetta við hliðina og síðan fyrir ofan,“ sagði hann að sögn Washington Examiner.