Áratugum saman hafa veiðiþjófar skotið fíla til að komast yfir skögultennur þeirra. Nú segja vísindamenn, sem standa að baki nýrri rannsókn, að þetta sanni að menn séu „bókstaflega að breyta líkamsbyggingu villtra dýra.
Áður var vitað að til var sjaldgæf stökkbreyting í genum fíla sem gerði að verkum að þeir fengu ekki skögultennur en rannsóknin leiddi í ljós að þessi stökkbreyting er orðin mjög algeng i sumum hópum afríska fíla. Þetta gerðist í kjölfar tímabils þar sem margir voru drepnir vegna tannanna. Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Science.
Vísindamenn rannsökuðu af hverju margir fílar í Gorongosa þjóðgarðinum Mósambík fæðast án skögultanna. Niðurstaða þeirra er að umfangsmikil dráp veiðiþjófa á fílum, til að komast yfir skögultennur þeirra, hafi valdið því að erfðabreyting hafi átt sér stað og fyrrgreinda sjaldgæfa stökkbreytingin náð yfirhöndinni.
The Guardian segir að í borgarastyrjöldinni í Mósambík, sem stóð yfir frá 1977 til 1992, hafi 90% af öllum fílum í landinu verið drepnir vegna skögultannanna. Stríðandi fylkingar stóðu fyrir þessu og seldu fílabeinið til að fjármagna stríðsrekstur sinn. En fílar, sem voru án skögultanna, voru látnir óáreittir og það varð til þess að meiri líkur urðu á að þeir myndu eignast afkvæmi án skögultanna.
Nú nokkrum fílakynslóðum síðar eru þessi áhrif greinileg í hópi um 700 fíla sem búa í Gorongosa þjóðgarðinum.