NASA segir að nú standi yfir lokatilraunir áður en geimfarinu verður skotið á loft í febrúar með svokallaðri Space Launch System eldflaug. Búið er að festa Orion geimfarið við eldflaugina sem er 98 metrar á lengd.
Í tilkynningu NASA segir að verkefnið, sem nefnist Artemis 1, muni „ryðja brautina fyrir tilraunaflug með geimfara í framtíðinni,“ og „flóknari verkefni þar sem geimfarar fara hringi í kringum tunglið og lenda á því“.
51 ár er nú liðið síðan NASA sendi síðast geimfara til tunglsins en á árunum 1969 til 1972 voru 12 geimfarar sendir þangað.