Málið snýst um að fólkið fór til útlanda á sama tíma og það þáði bætur en það er óheimilt samkvæmt reglum því fólkið verður að vera heima í Danmörku og vera reiðubúið til að taka að sér vinnu ef hún býðst. Fólk má í sjálfu sér fara til útlanda en það verður bara að tilkynna atvinnuleysissjóðum og sveitarfélögunum um það áður.
Eftirlit er haft með þessu á flugvöllum landsins en hlé var gert á eftirlitinu á meðan heimsfaraldur kórónuveirunnar var í hámarki. En eftirlitið var tekið upp á nýjan leik í júní og eins og fyrr segir skilað 585 málum síðan.
Bara um síðustu helgi komu 49 slík mál upp á Kastrupflugvellinum í Kaupmannahöfn.
Samkvæmt frétt Berlingske verða flest þessara mála tilkynnt til atvinnuleysissjóða og sveitarfélaga. Sjóðirnir og sveitarfélögin geta síðan gert endurkröfurétt á viðkomandi einstaklinga og geta krafist endurgreiðslu á bótum og sekta að auki.
Nú þegar er búið að gera kröfur í 159 af þessum málum og hljóða þær upp á 883.756 danskar krónur en það svarar til um 19 milljóna íslenskra króna.