fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Pressan

Morð, horfnir peningar og yfirhylming – Málið sem heltekur þjóðina

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 26. október 2021 06:05

Murdaugh-fjölskyldan. Buster, Maggie, Paul og Alex. Mynd:Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þetta er saga sem er eiginlega jafn þykk og olíukennd og drullan víða í Suður-Karólínu. Margslungin og snertir marga fleti. Hneyksli, ríkt fólk, valdamikið fólk, spilling. Hver veit hvað? Enginn þorir að segja neitt. Þetta er málið sem heltekur marga Bandaríkjamenn þessa dagana.

Málið snýst um Richard „Alex“ Murdaugh, 53 ára lögmann og fyrrum saksóknara úr einni valdamestu fjölskyldu Bandaríkjanna. Hann var færður fyrir dómara í Columbia, höfuðborg Suður-Karólínu, í síðustu viku ákærður fyrir að hafa misfarið með 3,5 milljóna dala tryggingafé sem var greitt vegna andláts Gloria Satterfield, sem var ráðskona fjölskyldunnar árum saman. Saksóknari og verjandi féllust á að hann yrði látinn laus gegn tryggingu en dómarinn hafnaði því og sagði að Murdaugh væri hættulegur sjálfum sér vegna ákærunnar og 20 ára fíknar en hann hefur verið háður ópíóíðum í öll þessi ár.

Lögmaður Satterfield, Ronnie Richter, sagði í samtali við the Guardian að málið sé dæmigert fyrir hvernig sumir telji sig hafna yfir lögin. „Í þessu landi glímum við við það vandamál að völd og áhrif, hvort sem þau eru til staðar eða ekki, tryggi þér aðgang að öðru dómskerfi. Það þurfti hugrekki hjá kerfinu til að segja að þú munir fá sömu málsmeðferð og aðrir,“ sagði hann og vísaði þar til ákvörðunar dómarans um að hafna lausn gegn tryggingu sem bæði verjandi og saksóknari vildu gera. Aðspurður sagði Richter að fjölskylda Satterfield sé ekki endilega sannfærð um að skýringar Murdaugh á dauða hennar séu sannar, málið sé í rannsókn eins og fleiri mál.

Fjöldi mála

Á síðustu mánuðum hefur nafn Alex Murdaugh komið mikið við sögu og má segja að það hafi skilið eftir sig slóð. Eins og DV hefur fjallað um þá fundust eiginkona hans og sonur skotin til bana í sumarhúsi fjölskyldunnar í byrjun júní. Lögreglan hefur ekkert gefið út um hvort og þá hver er grunaður um morðið. Eiginkona, Maggie Murdaugh, hafði sótt um skilnað skömmu áður eftir að ávísun sem hún sendi góðgerðarstofnun reyndist innistæðulaus.

Þremur dögum eftir að mæðginin fundust látin tilkynnti lögreglan að hún myndi hefja rannsókn á nýjan leik á dauða Stephen Smit, 19 ára, sem fannst látinn á vegi nærri heimili Murdaugh í júlí 2015. Opinberlega var sagt að um ákeyrslu og afstungu hefði verið að ræða en djúp sár á höfði hans bentu til að hann hefði verið barinn til bana.

Í júlí var skýrt frá því að í dómsskjölum hefði komið fram að Murdaugh-fjölskyldan hefði beitt áhrifum sínum innan lögreglunnar til að hafa áhrif á rannsókn slyss 2019 þegar Mallory Beach, 19 ára, dóttir þekkts lögmanns í Suður-Karólínu lést í bátaslysi. Paul Murdaugh, sonur fyrrnefnds Alex Murdaugh, var talinn hafa verið við stýrið á bátnum og hafi verið undir áhrifum áfengis. En svo undarlegt sem það nú er þá var þess ekki getið í skýrslu lögreglunnar, þrátt fyrir framburð vitna þar um.

Paul Murdaugh.

Í byrjun september var Alex skotinn í höfuðið á þjóðvegi eftir að sprungið hafði á bifreið hans. Hann lifði þetta af. Lögreglan handtók fljótlega fyrrum skjólstæðing hans, Curtis Smith, sem hafði verið ráðinn af Alex til að myrða hann. Í kjölfarið átti Buster, sonur Alex, að fá greidda 10 milljón dollara líftryggingu hans.

Tíu dögum eftir skotárásina var Murdaugh handtekinn vegna málsins. Hann fór síðan í vímuefnameðferð. Í síðustu viku var hann síðan handtekinn, þar sem hann í meðferð í Flórída, grunaður um að hafa beint fjármunum, sem ættingjar Satterfield fengu í dánarbætur, annað en þeir áttu að fara en hann sá um málið fyrir þá.

En nú hafa vaknað spurningar um hvernig andlát Satterfield bar að. Murdaugh sagði hana hafa hrasað um heimilishundinn og lent á höfðinu. Hún lést síðar af völdum heilablóðfalls og hjartaáfalls. Fyrir dómi í síðustu viku sagði saksóknari að fjársvikamálið væri bara „toppurinn á ísjakanum“ og að fljótlega muni ákæruvaldið skýra nánar frá þessu.

Markar þetta endalok ættarveldisins?

Íbúar í Colletonsýslu, þar sem Murdaugh-fjölskyldan bjó, eru ekki vissir um hvernig allt þetta mun enda, hvort ættarveldið heyri brátt sögunni til eða hvort Murdaugh-fjölskyldan nái vopnum sínum og Alex sleppi við dóm. Fjölskyldan er sögð hafa efnast á sölu á heimabruggi fyrir margt löngu og úr því hafi ættarveldið orðið til. Fjölskyldan á miklar landareignir og hefur mikil áhrif í pólitík og dómskerfinu.

Í rúmlega 85 ár hefur einhver úr fjölskyldunni gegnt stöðu saksóknara sýslunnar en þeir eru kosnir í almennum kosningum. Sumir segja að fjölskyldan hafi alltaf keypt sér atkvæði til að tryggja sér embættið. Það var að sögn gert með peningagjöfum til svartra og kirkna.

Fáir íbúar þora að tjá sig opinberlega um málið, segja að of mikið sé í húfi fyrir þá. Sumir sem voru í skóla með Alex segja að hann hafi verið eineltisseggur sem hafi níðst á börnum úr lægri stéttum. Það sem hann hafi nú lent í eigi hann einfaldlega skilið. Aðrir segja að fjölskyldan hafi alltaf borið sigur úr býtum fyrir dómskerfinu, engu máli hafi skipt um hvað málin snerust, dómurum hafi einfaldlega verið sagt hvernig þeir ættu að dæma. Nú er spurningin bara hvort fjölskyldunni tekst að bjarga sér fyrir horn eða hvort komið sé að endalokunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Ætlaði að heilla unnustuna – Var étinn af ljónum

Ætlaði að heilla unnustuna – Var étinn af ljónum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Ryanair lætur hart mæta hörðu – Lögsækir farþega

Ryanair lætur hart mæta hörðu – Lögsækir farþega
Pressan
Fyrir 4 dögum

Arfleiddi lítinn franskan bæ að 10 milljónum evra – Kom aldrei þangað í lifanda lífi

Arfleiddi lítinn franskan bæ að 10 milljónum evra – Kom aldrei þangað í lifanda lífi
Pressan
Fyrir 5 dögum

Vaxandi áhyggjur af að skjöl varðandi Elísabetu II verði ritskoðuð

Vaxandi áhyggjur af að skjöl varðandi Elísabetu II verði ritskoðuð