Í Rússlandi hefur hvert dapurlega metið á fætur öðru verið slegið að undanförnu hvað varðar fjölda smita og andláta af völdum COVID-19. Til að bregðast við þessu hafa borgaryfirvöld í Moskvu, þar sem ástandið er einna verst, ákveðið að frá og með 28. október til 7. nóvember megi aðeins þær verslanir vera opnar sem selja nauðsynjavörur á borð við mat og lyf.
Einnig hafa borgaryfirvöld fyrirskipað öllum borgarbúum 60 ára og eldri, sem ekki hafa verið bólusettir, að halda sig heima næstu fjóra mánuði. Fyrirtæki í borginni eiga að láta að minnsta kosti þriðja hvern starfsmanna vinna að heiman.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO segir að sjö prósent aukning hafi orðið á smitum í Evrópu síðustu vikuna. Hans Kluge, svæðisstjóri WHO í Evrópu, segir að búið sé að bólusetja um þriðjung íbúa álfunnar. „Það verður að hækka bólusetningarhlutfallið. Það verður að jafna út muninn á bólusetningarhlutföllum á milli hinna ýmsu ríkja,“ sagði hann.
Rússar hafa farið verst út úr heimsfaraldrinum af Evrópuþjóðum ef litið er til andláta en um 228.000 hafa látist þar í landi. Þetta eru opinberar tölur en margir telja að raunverulegar andlátstölur séu miklu hærri, jafnvel rúmlega 400.000.
Ef andlátin eru skoðuð sem hlutfall af íbúafjölda þá er dánartíðnin mun hærri í öðrum ríkjum. Á toppnum trónir Bosnía-Hersegóvína með 3.408 andlát á hverja eina milljón íbúa og er ríkið raunar í öðru sæti á heimsvísu hvað þetta varðar. Aðeins í Perú er hlutfallið hærra eða 6.150 andlát á hverja milljón íbúa.
Í Lettlandi hefur smitum fjölgað mikið og hafa ekki greinst fleiri síðan heimsfaraldurinn skall á. Tæplega helmingur þjóðarinnar, sem telur 1,9 milljónir, hefur lokið bólusetningu. Nú verður öllum verslunum og fyrirtækjum, sem ekki teljast til lífsnauðsynlegrar starfsemi, lokað. Fjarkennsla verður tekin upp á nýjan leik í skólum og útgöngubann verður í gildi á milli klukkan 20 og 05.