Þetta kemur fram í umfjöllun finans.dk. Fram kemur að verðið hafi næstum því fjórfaldast og það hafi sín áhrif á bændur sem hiki margir við að kaupa áburð vegna verðsins. Markaðurinn er sagður vera nánast frosinn og verðin komin alveg út úr korti. Margir áburðarframleiðendur í Evrópu og Kína hafa stöðvað framleiðsluna og það hefur valdið enn frekari verðhækkunum.
Ástæðurnar fyrir þessu eru slæm blanda markaðsafla og efnahags. Það þarf mikla orku til að framleiða áburð. Við framleiðslu á 100 kílóum er gaskostnaður 90% af heildarkostnaðinum. Verð á gasi hefur hækkað mikið á síðustu misserum og það skilar sé beint út í framleiðslukostnaðinn á áburði sem aftur skilar sér í verðinu til bænda. Það veldur því að bændur draga úr notkun og í framhaldi af því hætta sumir framleiðendur áburðarframleiðslu. Sem sagt slæm hringrás.
Sérfræðingar á þessum markaði telja að skortur verði á tilbúnum áburði á næsta ári og það muni valda matvælaskorti því heimsframleiðslan muni dragast saman.
Þetta mun að sögn ekki valda beinum matvælaskorti í þróuðu ríkjunum þar sem flestir geta tekist á við verðhækkanir á matvælum en fyrir þriðja heims ríkin getur þetta haft alvarlegar afleiðingar.
Sérfræðingar telja að brauð, hveiti og pasta muni fyrst hækka. Síðan muni verð á kjöti hækka, að minnsta kosti hjá þeim framleiðendum sem gefa dýrunum kornmeti.