Að undanförnu hafa þeir reynt að halda þeirri kenningu á lofti að veiran hafi borist til Kína frá Maine í Bandaríkjunum með humri.
NBC News skýrir frá þessu. Fram kemur að þýski vísindamaðurinn Marcel Schliebs, sem starfar hjá Oxford háskólanum á Englandi, hafi rekist á færslur um þetta þegar hann var að fara yfir opinbera Twitterprófíla kínverskra yfirvalda.
Hann sá að Zha Liyou, aðalræðismaður Kína, í Kokata á Indlandi hafði deilt færslu með þessari undarlegu kenningu um uppruna veirunnar. Kenningin gengur í stuttu máli út á að veiran hafi borist til Kína í nóvember 2019 með humri frá Maine. Út frá þessu á veiran að hafa breiðst út um heiminn. En því fer víðs fjarri að þetta hafi verið sannað.
Schliebs sá að þessari kenningu hafði verið deilt á tæplega 600 mismunandi kínverskum Twitterprófílum um langa hríð og líkist þetta að hans mati samhæfðri aðgerð. Kenningunni var dreift á kínversku, spænsku, frönsku, pólsku, kóresku og meira að segja latínu. Þetta gerðist alltaf á sama tíma eða á milli klukkan 8 og 11 að kínverskum tíma.
NBC News hefur eftir honum að sumir þessara prófíla hafi greinilega verið „óvandaðir leppreikningar“ með nokkra eða jafnvel enga fylgjendur. Aðrir virtust hafa verið „eðlilegir“ prófílar í upphafi en hafði svo líklegast verið stolið og síðan notaðir til að dreifa röngum upplýsingum og falsfréttum.