Mark Forkner, 49 ára, var tengiliður Boeing við bandarísk flugmálayfirvöld, FAA, og kom að ákvarðanatöku um hvernig ætti að þjálfa flugmenn áður en þeir færu að fljúga MAX vélunum. AFP skýrir frá þessu.
Hann afhenti FAA fölsuð gögn, ónákvæm og ófullunnin um hluta af stýrikerfi vélanna. Þetta stýrikerfi nefnist MCAS og varð þess valdandi að vélarnar tvær fórust 2018 og 2019. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu.
Forkner uppgötvaði stóra breytingu í MCAS árið 2016 sem átti að koma í veg fyrir að vélarnar myndu ofrísa. En hann ákvað að deila þessum upplýsingum ekki með FAA. Það hafði í för með sér að FAA gat ekki vísað til MCAS í þjálfunarleiðbeiningum flugmanna né öðrum skjölum. Hann er einnig sakaður um að samsæri gegn þeim viðskiptavinum sem keyptu 737 MAX vélarnar með því að leyna upplýsingum.
Eftir því sem kemur fram í skjölum sem voru birt í ársbyrjun 2020 þá montaði hann sig af því að geta svindlað á tengiliðum sínum hjá FAA til að fá MCAS samþykkt.
Bæði flugslysin voru rakin til þess að MCAS virkaði ekki eins og skyldi vegna rangra upplýsinga sem komu frá skynjara á flugvélunum. Það var ekki fyrr en í árslok 2020 sem búið var að uppfæra hugbúnaðinn í MCAS og aftur mátti fara að nota vélarnar.
Ef Forkner verður sakfelldur á hann allt að 100 ára fangelsi yfir höfði sér.