Þeir fundu beinagrind manns sem grófst undir fargi þegar eldgosið átti sér stað. Menningarmálaráðuneyti Ítalíu segir þessa uppgötvun vera „stórkostlega“. The Guardian skýrir frá þessu.
Fornleifafræðingar telja að maðurinn hafi verið á aldrinum 40 til 45 ára og hafi látist nokkrum skrefum frá sjónum þegar hann flúði undan gosinu. Beinagrind hans fannst þar sem strönd bæjarins var til forna. Höfuð hans vísaði í átt að sjónum og var beinagrindin umkringd leifum af viði, þar á meðal bjálka úr lofti en hann gæti hafa brotið höfuðkúpu mannsins að sögn ítölsku fréttastofunnar Ansa. „Síðustu sekúndurnar tóku fljótt af en voru hræðilegar,“ hafði Ansa eftir Francesco Sirano, forstjóra Herculaneum fornleifasvæðisins.
Það var um klukkan eitt að nóttu sem 300-400 gráðu heit gjóska náði að bænum. Sumir segja að hún hafi verið 500-700 gráðu heit. Þetta var sjóðandi heitt hvítt ský sem geistist í átt að sjónum á um 100 km/klst. Skýið var svo þétt að það var ekkert súrefni í því að sögn Sirano.