Eftir því sem Nada Elbuluk, læknir og prófessor við húðsjúkdómadeild Keck School læknadeildarinnar við University of Southern California, segir þá er rétt að fara í sturtu daglega eða annan hvern dag.
Þetta getur þó verið breytilegt á milli einstaklinga að hennar sögn. Til dæmis skipti daglegar venjur fólks máli, hvað það vinnur við, hvar það á heima og hvort það stundi líkamsþjálfun. CNN skýrir frá þessu.
Hún segir að við förum í sturtu til að skola af okkur olíu, húðfrumur, svita, bakteríur og skít. Ef þetta fær að byggjast upp á húðinni getur það valdið því að bólur spretta fram og jafnvel bakteríu- eða sveppasýkingum.
Hún sagði að fyrir fólk sem hættir til að fá bólur sé gott að fara í sturtu að líkamsrækt lokinni, það geti komið í veg fyrir bólumyndun. Þetta sé sérstaklega mikilvægt ef viðkomandi sé með andlitsfarða á sér á æfingu.
Hún segir að það sé einnig gott fyrir þá sem eru með viðkvæma eða þurra húð að fara í sturtu nokkrum sinnum í viku til að draga úr þurrkinum, kláða og bólgum.
Hún sagði einnig að það sé mikilvægara að beita réttum aðferðum í sturtu en að fara oft í sturtu. Nota eigi volgt vatn (ekki heitt), ekki vera lengur en í 10 mínútur og ekki nota húðhreinsiefni nema húðsjúkdómalæknir mæli með því.