Sky News skýrir frá þessu. Áður hafði verið skýrt frá því að drottningin hefði hætt við ferð til Norður-Írlands á miðvikudaginn að læknisráði.
Talsmaður hirðarinnar sagði að drottningin hafi verið lögð inn til „rannsókna“ en hefði snúið aftur til Windsor hallar um hádegisbil í gær og væri „hress“.
Innlögnin er ekki tengd COVID-19 og drottningin var komin á skrifstofu sína síðdegis í gær og sinnti léttum embættisverkum. Hún hefur sinnt fjölda embættisverka á síðustu vikum en fyrr í vikunni ráðlögðu læknar henni að hvílast í nokkra daga.
Elísabet er orðin 95 ára og í febrúar getur hún fagnað því að hafa verið drottning í 70 ár. Hún sinnir enn embættisskyldum af miklum krafti en hefur þó dregið úr vinnu og falið Karli krónprinsi að taka við að mörgum af þeim verkefnum sem heyra undir þjóðhöfðingjann. Fyrr í þessum mánuði sást hún ganga með staf en það var í fyrsta sinn sem hún notaði staf á almannafæri.