Grunur lögreglunnar hefur lengi beinst að Tom Hagen og telur lögreglan að hann hafi átt hlut að máli, að minnsta kosti viti hann hver eða hverjir voru að verki. Vitað er að hjónin glímdu við hjónabandsörðugleika og Anne-Elisabeth hafði að sögn hugleitt að fara fram á skilnað. Þau hjónin eru milljarðamæringar.
VG hefur eftir lögreglunni að nú hafi verið ákveðið að beina kröftum hennar að nýrri slóð, sem er þó ekki svo ný. Það er hinn svokallaði „kryptomand“ (rafmyntamaðurinn) sem sjónir lögreglunnar beinast nú að. Þetta er norskur karlmaður á fertugsaldri sem hefur áður verið yfirheyrður vegna málsins.
En nú beinast sjónir lögreglunnar að honum af öðrum ástæðum en áður. Í vor var hann sakaður um aðild að frelsissviptingu en hann hefur neitað sök. Lögreglan vinnur út frá þeirri kenningu að Tom Hagen og „kryptomanden“ hafi hist skömmu áður en Anne-Elisabeth hvarf.
Lögreglan telur ekki lengur að „kryptomanden“ hafi átt aðild að hvarfi Anne-Elisabeth en telur hins vegar að hann geti verið lykillinn að lausn málsins. Lögreglumenn eru sagðir sannfærðir um að þeir sem námu Anne-Elisabeth á brott hafi stolið persónuupplýsingum „kryptomanden“ og notað þær.
Eins og staðan er nú þá telja stjórnendur rannsóknarinnar að þessi slóð sé líkleg til að ná árangri við rannsókn málsins. Germund Hanssen, talsmaður lögreglunnar, sagði í samtali við VG að af þessum sökum muni lögreglan nú beina kröftum sínum að þessari slóð. Meginmarkmiðið sé að finna út hver skrifaði hótunar- og lausnargjaldsbréfið sem fannst á heimili Hagen-hjónanna.