Í síðustu viku er talið að tíunda hvert barn á aldrinum 7 til 11 ára hafa verið smitað af kórónuveirunni.
Breska ríkisstjórnin hefur varað landsmenn við og segir að þeir séu nú að sigla inn í erfiðan vetur þar sem smitum muni fjölga og mjög líklegt sé að heilbrigðiskerfið þurfi að glíma við mikið álag.
Daglegum smitum hefur fjölgað jafnt og þétt allan mánuðinn en á mánudaginn voru þau rúmlega 49.000, aðeins 19.000 færri en 8. janúar síðastliðinn þegar smitin voru í hámarki. Í gær greindust 48.000 smit.
Andrew Hayward, farsóttafræðingur og ráðgjafi ríkisstjórnarinnar, sagði í samtali við GB News að með núverandi þróun muni smitum fjölga enn frekar um tíma. Hann sagði einnig að álagið á heilbrigðiskerfið geti orðið það mikið að erfitt verði að finna laus rými fyrir alla og að skortur geti orðið á starfsfólki. Hann sagði stöðuna vera mikið áhyggjuefni því álagið á heilbrigðiskerfið geti orðið gríðarlegt.
The Guardian segir að hlutfall látinna hafi verið 11,4% hærra í síðustu viku en vikuna á undan en á sama tíma fjölgaði sjúkrahúsinnlögnum um 6,9% á milli vikna.