Geimfarið á að rannsaka loftsteina nærri Júpíter. Lucy mun „heimsækja“ átta loftsteina í ferðinni. Lucy er 14 metra langt geimfar sem gengur bæði fyrir eldsneyti og sólarorku. Þetta verður fyrsta sólarknúna geimfarið sem fer svo langt frá sólinni.
Verkefni Lucy verður að rannsaka loftsteina sem eru innan þyngdaraflssviðs Júpíters. NASA vonast til að verkefnið veiti upplýsingar um hvernig pláneturnar og sólkerfið urðu til.
Það er af nógu að taka þegar kemur að loftsteinum nærri Júpíter því talið er að þeir séu um 7.000 talsins. Lucy mun fara í tæplega 400 kílómetra fjarlægð frá loftsteinunum átta. Sá stærsti þeirra er 95 kílómetrar í þvermál. Um borð í Lucy er háþróaður búnaður til að rannsaka samsetningu loftsteinanna, þéttleika þeirra og fleira.