Í ljós kom að stytturnar eru mörg þúsund ára gamlar og því að vonum mjög verðmætar. Þær voru seldar á uppboði hjá Mander Auctions. Fjölskyldan, sem átti stytturnar, setti sig í samband við uppboðshúsið og bað um aðstoð við að selja þær og fleira vegna flutninga.
Stytturnar höfðu staðið úti árum saman sem garðskraut en eigendurnir keyptu þær fyrir nokkur hundruð pund á uppboði fyrir 15 árum í þeirri trú að um eftirlíkingar væri að ræða.
Hjá uppboðshúsinu var talið að stytturnar væru eftirlíkingar og var talið að fyrir þær fengist sem svarar til 60.000-90.000 íslenskra króna. En það fór nú ekki svo.
CNN hefur eftir James Mander, uppboðshaldara, að fljótlega eftir að uppboðið hófst hafi allt orðið brjálað. Fyrsta boð var upp á 200 pund en innan 15 mínútna var verðið komið upp í 195.000 pund, sem svarar til um 35 milljóna íslenskra króna. Að auki þarf kaupandinn að greiða 24% þóknun til uppboðshússins. Það var alþjóðlegt listaverkasafn sem keypti stytturnar.