The Guardian skýrir frá þessu. Segir blaðið að nú séu 39.000 stöður hjúkrunarfræðinga í Englandi auglýstar lausar til umsókna.
Eins og fram hefur komið í fréttum þá er það útganga Breta úr ESB sem veldur því að skortur er á flutningabílstjórum og það sama á við í tilfelli hjúkrunarfræðinga, að minnsta kosti að hluta. Frá því að Bretar greiddu atkvæði um Brexit 2016 hafa rúmlega 10.000 hjúkrunarfræðingar frá ESB-ríkjum horfið á brott frá Bretlandi.
Eins og staðan er núna greiðir heilbrigðiskerfið, NHS, einstökum sjúkrahúsum allt að 7.000 pund fyrir hverja lausa stöðu til að reyna að fá hjúkrunarfræðinga frá útlöndum til starfa, þar á meðal frá Indlandi og Filippseyjum. Féð er meðal annars notað til að greiða fyrir flugmiða og sóttkví við komuna til Bretlands.
Samtök hjúkrunarfræðinga segja að um stórt vandamál sé að ræða. „Það er bara ekki nægilega mikið af starfsfólki til að við getum veitt nauðsynlega umönnun og nú stöndum við uppi með raunverulegan skort á hjúkrunarfræðingum,“ hefur The Guardian eftir Patricia Marquis, formanni stéttarfélags hjúkrunarfræðinga, Royal College of Nursing. „Við hefðum aldrei átt að lenda í þeirri stöðu að vera svo háð útlendum hjúkrunarfræðingum,“ sagði hún einnig.
Boris Johnson, forsætisráðherra, er undir miklum þrýstingi vegna afleiðinga Brexit og sérfræðingar vara við að ofan í þann vanda bætist að allt að 60.000 Bretar geti látist í vetur af völdum inflúensu.
Á síðasta ári lofaði Johnson að hjúkrunarfræðingum yrði fjölgað um 50.000 fyrir árið 2025. Hann hefur þó neyðst til að draga í land og játa að tæplega helmingur þeirra verði ekki nýir hjúkrunarfræðingar heldur hjúkrunarfræðingar sem á að halda áfram í vinnu.