Alþjóðlegur hópur vísindamanna notar Low Frequency Array loftnetskerfið, sem er í Hollandi, til að hlusta eftir útvarpsbylgjum frá 19 fjarlægum rauðum dvergstjörnum. Þetta er öflugasta loftnetskerfið á jörðinni.
The Guardian segir að frá fjórum af þessum rauðu dvergstjörnum berist merki sem benda til að plánetur séu á braut um þær. Benjamin Pope, stjarneðlisfræðingur við University of Queensland í Ástralíu, segir að þessi uppgötvun opni „gjörsamlega ný tækifæri“ til að rannsaka fjarplánetur þar sem líf getur hugsanlega þrifist.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í vísindaritinu Nature Astronmy.
Joseph Callingham, stjórnandi rannsóknarinnar, segir að teymið telji öruggt að merkin komi frá rafsegultengingu á milli stjarnanna og áður óséðra pláneta sem séu á braut um þær.
Þegar Pope var spurður hvort hann telji að líf sé aðeins að finna hér á jörðinni sagði hann: „Ég held að það sé líf þarna úti. Ég væri ekki í þessari vinnu ef ég héldi ekki að það séu raunhæfir möguleikar á því,“ sagði hann og bætti við að hann telji að við fáum svar við þessu innan ekki svo langs tíma.