CNN skýrir frá þessu og vitnar í rannsókn vísindamannanna sem hefur verið birt í vísindaritinu Advancing Earth and Space Science. „Earthshine“ er það fyrirbæri sem á sér stað þegar ljós frá sólinni endurkastast frá jörðinni á dökku hlið tunglsins og síðan aftur til jarðarinnar. Þetta ljós hefur dofnað að sögn vísindamannanna.
Philip Goodie, sem er prófessor í eðlisfræði og stjórnandi rannsóknarinnar, segir að jörðin endurkasti um það bil hálfu vatti minna af ljósi á hvern fermetra en hún gerði fyrir 20 árum. Í heildina svarar þetta til að endurkastið hafi minnkað um 0,5 prósent.
Hálft vatt á hvern fermetra svarar til um tíunda hlutar rafmagnsnotkunar venjulegrar sparperu.
Samdrátturinn í endurkasti birtunnar varð þó fyrst áþreifanlegur fyrir þremur árum, árin 17 á undan breyttist endurkastið nær ekkert.
Vísindamennirnir segja að ástæðan fyrir breytingunni á endurkastinu geti verið að á síðustu árum hefur skýjum fækkað yfir jörðinni og því gat ljós frá sólinni ekki lent á þeim og endurkastast út í geiminn.
CNN segir að mesti samdrátturinn í endurkastinu sé yfir vesturströnd Norður- og Suður-Ameríku en á þessu svæði hefur yfirborðshiti sjávar hækkað vegna hinna svokölluðu Pacific Decadal Oscillation (PDO) frávika. PDO eru frávik að náttúrulegum ástæðum sem breyta hitanum í norðurhluta Kyrrahafsins.