Norska ríkisútvarpið skýrir frá þessu. Í dómsorði kemur fram að börnin hafi lifað í stöðugum ótta við að verða fyrir ofbeldi og kynferðislegu ofbeldi.
Móðir barnanna og afi þeirra voru dæmd í níu ára fangelsi en faðir þeirra í átta ára fangelsi. Þau voru einnig hvert um sig dæmt til að greiða hverju barni sem svarar til um sjö milljóna íslenskra króna í miskabætur.
Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að móðirin hefði brennt börnin með kveikjara, að þau hefðu verið bundin, lokuð uppi á háalofti, lokuð úti og að þetta hafi viðgengist árum saman.
Fólkið var einnig ákært fyrir að hafa beitt börnin kynferðislegu ofbeldi, allt frá því að þau voru kornabörn. Dómurinn lagði ekki trúnað á neitun foreldranna á þessu. „Það er álit dómsins að útskýringar foreldranna séu byggðar á vilja þeirra til að komast hjá refsiábyrgð,“ segir í dómsorði.
Yfirlæknirinn, sem rannsakaði börnin, sagði fyrir dómi að hann hefði aldrei áður séð svo alvarlegar afleiðingar kynferðisofbeldis. Hann rannsakaði börnin 2019, sex árum eftir að þeim var komið fyrir á fósturheimili.
Foreldrar barnanna og afi þeirra neituðu sök og sögðust vera gott og kærleiksríkt fólk og að ásakanir um ofbeldi væru byggðar á miklu ímyndunarafli barnanna.