Á síðasta ári var dapurlegt metið slegið í Bretlandi varðandi orkuverð og þá vöruðu sérfræðingar við afleiðingum þess fyrir fátækasta fólkið. En staðan hefur alls ekki batnað síðan síðasta vetur og nú er reiknað með 30% verðhækkun til viðbótar.
Þetta þýðir að milljónir Breta standa frammi fyrir því að velja á milli þess að geta keypt sér mat eða hitað húsakynni sín. „Núna er þetta spurning um hvort fjölskyldur hafi efni á að hita húsakynni sín. Fólk mun þurfa að velja á milli þess að kaupa sér mat eða hita húsin sín,“ sagði Claire Moriarty, hjá Citizen‘s Advice, í samtali við BBC.
Talið er að fimm og hálf milljón breskra heimila verði í þessari stöðu þegar líður að vori. Þegar búið verður að greiða orkureikningana verður ekki mikið eftir til matarkaupa eða annars. „Það er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin bregðist við núna. Við stöndum frammi fyrir því að milljónir manna munu standa frammi fyrir miklum hörmungum. Við finnum vaxandi ótta meðal þeirra fátæku um að þeir verði einfaldlega að loka fyrir hitann til að geta gefið börnunum sínum að borða,“ sagði Moriarty.
Bretar eru í sérstaklega erfiðri stöðu því þar í landi eru aðeins til gasbirgðir til átta daga en í flestum ESB-ríkjum eru til birgðir til 80-90 daga.
Svo virðist sem sá ótti margra að orkukrísan breiðist út til annara hluta samfélagsins sé að rætast og að verðbólgan fari af stað. Iceland verslunarkeðjan tilkynnti nýlega að vegna hækkandi orkuverðs muni matvörur hækka umtalsvert. Richard Walker, forstjóri keðjunnar, sagði í samtali við Bloomberg að keðjan verði því miður að velta hækkunum yfir á neytendur, hún geti ekki tekið þær á sig sjálf.
Reiknað er með að aðrar verslunarkeðjur verði að grípa til sömu aðgerða og Iceland. Þetta þýðir að sjálfsögðu að ráðstöfunartekjur fólks munu minnka og gera því enn erfiðara fyrir við rekstur heimilis.