Kommúnistastjórnin lítur á Taívan sem óaðskiljanlega hluta af Kína og hefur að undanförnu sýnt hernaðarmátt sinn í auknum mæli við eyjuna. Það er nær daglegt brauð að kínverskar herþotur fljúgi inn í lofthelgi Taívan og nú eru kínverskir hermenn að æfa landgöngu í Taívansundi. Þessar æfingar má telja vera undirbúning fyrir innrás á Taívan.
Taívanski herinn er við öllu búinn og bandarískir hermenn eru á Taívan en það hefur hleypt mjög illu blóði í Kínverja eftir að fréttir bárust af veru þeirra á eyjunni um helgina. Þeir eru að þjálfa taívanska hermenn og sinna ráðgjafastörfum fyrir her landsins.
Það hefur verið opinbert leyndarmál áratugum saman að bandarískir hermenn séu á eyjunni en sú ákvörðun bandarískra stjórnvalda að „leka“ upplýsingum um það til fjölmiðla um síðustu helgi er talin vera aðvörun til Kínverja um að Bandaríkin muni ekki láta árás á Taívan viðgangast án þess að bregðast við.
Kínverjar svöruðu þessum fréttum með því að birta myndband af hermönnum æfa landgöngu í Fujianhéraði sem er gegnt Taívan við Taívansund.