Smitum hefur fjölgað gríðarlega síðustu daga. Á föstudaginn greindust tæplega 14.000 smit og 385 létust af völdum COVID-19 en aldrei fyrr hafa svona margir látist af völdum COVID-19 á einum degi í landinu.
Al Jazeera segir að rúmenskir fjölmiðlar segi frá því að langar raðir sjúkrabíla séu við sjúkrahús í höfuðborginni Búkarest og í norðausturhluta landsins. Ekki er hægt að taka sjúklingana úr þeim fyrr en sjúkrarúm losna og oftast er það þannig að gjörgæslurými losna ekki nema aðrir sjúklingar deyi.
Tölur frá rúmenska heilbrigðisráðuneytinu benda til að allt að 90% þeirra sem látast séu óbólusettir.
Klaus Iohannis, forseti landsins, sagði nýlega að staðan í landinu væri „hamfarir“.
Rúmenía er meðal fátækustu ríkja Evrópu og þátttaka í bólusetningum gegn kórónuveirunni er sú næst lægsta í Evrópu en aðeins 33% landsmanna hafa lokið bólusetningu. Það er aðeins í Búlgaríu sem hlutfall bólusettra er lægra en þar hafa 22% landsmanna lokið bólusetningu.
Til samanburðar má nefna að í ESB-ríkjunum 27 hafa 72% íbúa að meðaltali lokið bólusetningu.