Borgarstjórnin og samtök múslima í borginni sömdu nýlega um þetta og er samningurinn byggður á að bænakall múslima megi heyrast eins og hljómur kirkjuklukkna.
„Allar 35 moskurnar í Köln mega nú kalla til bæna á föstudögum í allt að fimm mínútur á milli klukkan 12 og 15. Þetta verður gert til reynslu í tvö ár,“ segir í fréttatilkynningu frá borgaryfirvöldum.
Þetta á einnig við um stóru moskuna í borginni en hún hefur stundum verið miðpunktur óróleika í tengslum við öfgahægrimenn og hópa andsnúna múslimum. Aðallega eftir flóttamannastrauminn sem skall á Þýskalandi 2015 og 2016.
Henriette Reker, borgarstjóri, segir að leyfið til að kalla til bæna með hátölurum sé merki um virðingu og umburðarlyndi. „Gagnrýnendur ættu að líta í spegil. Ákvörðunin er merki um að í Köln þrífist fjölbreytni og að múslimar séu hluti af samfélaginu í borginni. Hver sá sem efast um þetta efast um það sem einkennir Köln og friðsama sambúð,“ sagði hún.
Moskurnar verða að fara eftir reglum um hljóðstyrk og láta nágranna vita áður en kallað er til bæna. Rúmlega 4,5 milljónir múslima búa í Þýskalandi.