Þessar stúlkur eru gefnar í hjónaband áður en þær ná 18 ára aldri. Í dag er alþjóðlegi stúlknadagur Sameinuðu þjóðanna og af því tilefni birti Red Barnet (Björgum barninu) í Danmörku nýja skýrslu um þetta í dag. Samtökin segja að barneignir séu orsök flestra dauðsfalla unglingsstúlkna á heimsvísu.
Jakob Eilsøe Mikkelsen, hjá Red Barnet, segir að nú sé staða þessara mála verst í Vestur- og Mið-Afríku. Þar látast um 9.600 stúlkur árlega af ástæðunum sem eru nefndar hér að ofan. Mikkelsen segir að ástæðan sé að staðan sé viðkvæm í Afríku, átök geisi, áhrif loftslagsbreytinganna séu áþreifanleg og heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi orðið til þess að skólum hafi verið lokað. Þetta auki vandræði fjölskyldna. Þegar fátækar fjölskyldur lendi í vanda neyðist þær til að skoða hvað sé besta leiðin til að lifa af og stundum sé það að halda stúlkunum heima eða gifta þær á brott svo aðrir geti séð fyrir þeim.
Síðan heimsfaraldurinn skall á hafa margir haft áhyggjur af að hann myndi verða til þess að fleiri stúlkur yrðu gefnar í hjónaband því þær gætu ekki farið í skóla. Þessi ótti er staðfestur í skýrslunni en um leið er tekið fram að taka verði tölunum með fyrirvara því ekki liggi nægilega mikið af gögnum fyrir á þessu sviði.
Mikkelsen segir að í nokkur ár fyrir heimsfaraldurinn hafi þróunin verið sú að barnahjónaböndum fækkaði en allt frá því að hann skall á hafi þróunin verið í hina áttina. Hann sagði að margt þurfi að gerast til að hægt sé að snúa þessari þróun við en eitt það mikilvægasta sé að opna skólana og koma stúlkunum aftur í þá.
„Við höfum sé að það hefur verið auðveldara fyrir drengi að koma aftur í skóla en það er fyrir stúlkur. Þetta hefur óbein áhrif á barnahjónabönd því við vitum að þegar stúlkur mennta sig minnka líkurnar á að þær verði gefnar í hjónaband eða verði barnshafandi á unglingsaldri,“ sagði Mikkelsen.