Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að 1.240 gráðu heitt hraun renni nú í miklu magni niður hlíðar eldfjallsins og hafi eyðilagt síðustu byggingarnar sem stóðu óskemmdar í þorpinu Todoque. Með hraunstraumnum renna björg á stærð við þriggja hæða hús.
Spænsku almannavarnirnar skrifuðu á Twitter í gær að norðurhlið gígsins hafi hrunið og það hafi valdið því að stór björg hafi runnið niður hlíðarnar og nýir hraunstraumar hafi myndast og renni þeir yfir svæði sem búið var að rýma.
Fram að þessu hefur hraunflæðið eyðilagt 1.186 byggingar síðan gosið hófst 19. september. Það hefur einnig runnið yfir 493 hektara lands. Um 6.000 manns hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín en um 83.000 manns búa á eyjunni og hafa lifibrauð sitt aðallega af ávaxtarækt og ferðamönnum.