Í umfjöllun The Guardian um málið kemur fram að þetta sé ein hættulegasta tilraun Trump og fylgismanna hans til að grafa undan kosningum í Bandaríkjunum. Hún gangi út á að styðja frambjóðendur sem vilja ekki samþykkja sigur Joe Biden í forsetakosningunum á síðasta ári og sækjast eftir embættum þar sem þeir gætu valdið miklu tjóni með því að ógilda úrslit kosninganna 2024.
Trump hefur lýst yfir stuðningi við nokkra Repúblikana sem sækjast eftir að verða ráðherrar kosningamála í heimaríkjum sínum en þessir ráðherrar eru æðstu embættismennirnir þegar kemur að kosningum. Ef þeir ná kjöri munu þeir hafa gríðarleg völd yfir kosningum og gætu innleitt reglur sem gera fólki erfitt fyrir við að kjósa og síðan gætu þeir komið í veg fyrir að úrslit kosninganna yrðu staðfest.
10 af þeim 15 sem bjóða sig fram til embætta ráðherra kosningamála í Arizona, Georgíu, Wisconsin, Michigan og Nevada hafa sagt að Trump hafi verið rændur sigri í kosningunum 2020 eða að rannsaka þurfi þær frekar.
Tilraunir Trump og stuðningsmanna hans til að ógilda úrslit síðustu kosninga strönduðu aðallega á ráðherrum kosningamála, sem voru úr bæði Repúblikanaflokknum og Demókrataflokknum, sem vildu ekki fylgja honum að málum. Ef þetta fólk missir embætti sín í kosningunum á næsta ári verður það þungt högg fyrir bandarískt lýðræði. En ekki má gleyma að dómstólar vísuðu málatilbúnaði Trump og stuðningsmanna hans á bug.