Frá því að þættirnir voru teknir til sýninga hefur hún fengið mörg þúsund símtöl og skilaboð frá ókunnugu fólki sem hefur séð þættina sem verða hugsanlega vinsælustu þættirnir sem Netflix hefur sýnt frá upphafi. Það er að minnsta kosti mat Netflix.
Í þáttunum fá 456 örvæntingarfullir og skuldum vafðir einstaklingar dularfullt nafnspjald með símanúmeri á. Getur fólkið hringt í númerið ef það vill taka þátt í baráttu um risastóra peningaupphæð og er keppt í kóreskum barnaleikjum. En það hefur alvarlegar afleiðingar að taka þátt.
En vandinn sem Kim Gil-young stendur frammi fyrir er að símanúmerið sem sést á nafnspjaldinu í þáttunum er símanúmerið hennar. Er óhætt að segja að hún sé orðin þreytt á öllum símtölunum og skilaboðunum.
Netflix og Siren Pictures, sem framleiddu þættina, hafa ákveðið að breyta þeim atriðum í þáttunum þar sem símanúmerið hennar sést í þeirri von að nú færist ró yfir. Netflix hvetur fólk einnig til að hætta að hringja í hana.