11 hinna myrtu voru fyrrum liðsmenn afganskra öryggissveita. 9 þeirra voru drepnir með beinni aftöku að því er segir í fréttatilkynningu frá Amnesty. Tveir til viðbótar, óbreyttir borgarar, voru einnig drepnir þegar þeir reyndu að flýja. Annar þeirra var 17 ára stúlka.
Talibanar segja þetta ekki rétt en Amnesty styðst við framburð sjónarvotta, ljósmyndir og myndbandsupptökur.
„Þessar kaldrifjuðu aftökur eru enn ein sönnun þess að Talibanar fremja samskonar hryllingsverk og þeir voru alræmdir fyrir þegar þeir voru síðast við völd í Afganistan,“ segir Agnés Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty International í fréttatilkynningunni.
Samtökin segja að erfitt sé að staðfesta framferði Talibana því þeir hafa bannað notkun farsíma í mörgum héruðum Afganistan. Samtökin hafa þó fengið ljósmyndir sem sýna þegar liðsmenn Talibana skutu á fólk í lok ágúst. Á myndunum sést að margir hinna látnu eru með skotsár á höfði.