The Guardian hefur eftir móður hennar, Tracey Halliday, að Jorja hafi verið „yndisleg stúlka“, vinmörg og hæfileikarík í kickboxi og góð þegar kom að tónlist. „Hún var mjög virk, henni fannst gaman að fara út og eyða tíma með vinum sínum og systkinum sínum. Hún óx og breyttist í fallega unga konu sem var alltaf reiðubúin til að hjálpa öðrum, var alltaf til staðar fyrir alla. Þetta er svo sárt því börnin eiga að lifa foreldra sína og ég get ekki jafnað mig á þessu,“ sagði Tracey.
Hún sagði að Jorja hafi ekki glímt við neina undirliggjandi sjúkdóma. Hún hefði fengið einkenni sem minntu á flensu og hafi farið í PCR-próf sem sýndi jákvæða niðurstöðu. Hún hafi þá farið í einangrun á heimili sínu. Á sunnudeginum átti hún erfitt með að koma mat niður og á mánudeginum gat hún ekki borðað því hún var með svo mikla hálsbólgu. Læknir lét hana hafa sýklalyf en heilsu hennar hrakaði og læknir var kallaður til og lét flytja hana á sjúkrahús þar sem hjartsláttur hennar var tvöfalt hraðari en hann átti að vera.
Tracey sagðist hafa fengið að vera hjá henni, halda í hönd hennar og faðma því læknar hafi áttað sig á hversu alvarlegt ástand hennar var. Hún var sett í öndunarvél en ekki tókst að ná stjórn á hjartslættinum og að lokum gafst hjartað upp og hún lést.
Bráðabirgðaniðurstaða krufningar bendir til að hún hafi látist af völdum bólgu í hjarta.