Formaður nefndarinnar, Jean-Marc Sauve, segir að talið sé að á milli 2.900 til 3.200 manns, með tengsl við kaþólsku kirkjunnar, hafi beitt börn kynferðisofbeldi á síðustu 70 árum. Í samtali við Le Monde sagði hann að þetta væri þó „varfærið mat“.
Niðurstaða nefndarinnar staðfestir ljótan grun margra Frakka en áður en rannsóknarnefndin hóf störf fyrir þremur árum höfðu mörg mál komið upp þar sem upp komst um barnaníðinga innan kaþólsku kirkjunnar í Frakklandi.
Margir hafa því beðið eftir niðurstöðu nefndarinnar og franskir fjölmiðlar segja niðurstöðu hennar mikið áfall vegna þess hversu mörg fórnarlömbin eru og hversu margir níðingarnir eru. Nefndin telur að fórnarlömbin séu að minnsta kosti 10.000.
Margir franskir prestar töluðu um skýrsluna í gær í guðsþjónustum sínum. Þeir sögðu að skýrslan sé mikið áfall fyrir þá og að nú þurfi fórnarlömbin að stíga fram og að þau eigi ekki að skammast sín og að kirkjan verði að standa saman um að styðja þau gegn prestum, sem eru barnaníðingar, og öðrum sem hafi leikið lausum hala í 70 ár.
Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar byggir á mikilli vinnu þar sem farið var yfir skjalasöfn kirkjunnar, lögreglunnar og dómstóla auk þess sem rætt var við mikinn fjölda fórnarlamba og vitna.
Þetta er ekki fyrsta afhjúpunin á níðingsverkum af þessu tagi innan kaþólsku kirkjunnar. Áður hefur komið fram að í Bandaríkjunum, Ástralíu, Þýskalandi og Írlandi viðgekkst barnaníð innan kirkjunnar. Það sama á við í fleiri löndum.