Þetta kemur fram í nýrri rannsókn bandarískra vísindamanna. Danska ríkisútvarpið skýrir frá þessu. Hefur það eftir Uffe Gråe Jørgensen, stjarneðlisfræðingi við Niels Bohr stofnunina, að loftsteinar af þessari stærð skelli á jörðinni á 100 til 200 ára fresti. Mjög líklegt sé að margir þeirra lendi á stöðum þar sem þeir valda ekki miklu tjóni. Hann sagði að samt sem áður þurfi að hafa varann á varðandi loftsteina af þessari stærð og það sama eigi við um halastjörnur. Þrátt fyrir að líkurnar á árekstri séu ekki miklar þá verði tjónið mikið ef árekstur verður.
Fornleifafræðingar og samstarfsmenn þeir unnu við uppgröft í Tall el-Hammam í 15 ár og byggir rannsóknin á þeirri vinnu.
Vísindamennirnir líkja loftsteininum í Tall el-Hammam við loftsteininn sem sprakk yfir Tunguska í Síberíu 1908. Hann eyðilagði 2.000 ferkílómetra skóglendis og um 80 milljónir trjáa. Sú sprenging var mörgum sinnum öflugri en kjarnorkusprengjan sem var sprengd yfir Hiroshima í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Sumir vísindamenn telja að sprengingin í Tunguska hafi verið 185 sinnum öflugri en aðrir segja hana hafa verið allt að 1.000 sinnum öflugri.