Kaffibaunir vaxa best við sérstakar aðstæður þar sem þær fá mikið af sól og því steðjar ógn að regnskógum því það er freistandi að ryðja þá til að geta ræktað kaffibaunir á landsvæðinu. Þetta hefur fengið vísindamenn við finnsku tæknirannsóknastofnunina til að þróa nýja tegund af kaffi. Þeim hefur tekist að rækta, hella upp á og drekka kaffi í rannsóknarstofu sinni með því að nota frumur úr kaffiplöntu sem voru settar í tilraunaskál. Engar kaffibaunir né plantekrur komu við sögu.
Það er þó enn langt í land að við getum fengið okkur kaffi sem á rætur að rekja til finnsku rannsóknarstofunnar en reikna má með að í framtíðinni muni kaffi af þessu tagi hefja innreið sína á markaðinn. Það myndi draga úr álagi á umhverfið og loftslagið um leið og fólk gæti drukkið þennan eftirlætisdrykk sinn.